Færsluflokkur: Bloggar

Ónýtt kosningamál í Þingeyjarsveit?

Samstaða fékk 5 menn kjörna af 7 í sveitarstjórnarkosninum í Þingeyjarsveit vorið 2014. Listinn lagði það m.a. til að haustið 2014 færi fram íbúakosning í skólahverfi Þingeyjarskóla um framtíðarskipan skólans.

Kjósa átti um fyrirkomulag grunnskólastigsins í "austurhluta sveitarfélagsins"; Hvort það yrði áfram á tveimur starfsstöðvum - Hafralæk og Laugum, (sem kallast hér einu nafni "Þingeyjarskóli") eða hvort sameina skyldi það á einn stað. Íbúakosningin átti að vera bindandi en sveitarstjórn tæki að henni lokinni ákvörðun í málinu. Aðeins íbúar á skólasvæði Hafralækjarskóla og Litlu-Laugaskóla áttu að taka afstöðu til málsins, en þriðji skólinn í sveitarfélaginu er á Stórutjörnum.

Nú í haust kom svo í ljós að hugmyndir Samstöðu um íbúakosningu í "austurhluta" Þingeyjasveitar stóðust líklega ekki stjórnsýslulög. Meirihlutinn fékk þá Félagsvísindastofnun HÍ til að spyrja alla íbúa sveitarfélagsins að einni spurningu um skólamál:  Hvort fólk vildi að Þingeyjarskóli verði starfræktur á einni eða tveimur starfsstöðvum. Íbúar á skólasvæði Stórutjarnarskóla voru líka spurðir.

Brustu þar með rök meirihluta Samstöðu í þessu máli?  Má ætla að meirihlutinn hafi ekki umboð frá kjósendum frá því í kosningunum í vor til að taka afstöðu í málinu? Meirihlutar í sveitarstjórnum á Íslandi hafa sprungið af minna tilefni.


Við þurfum nýja leikmenn. Burt með spillingarliðið!

c_users_anna_pictures_takk_faroe_islands_501x101px.gif Skjótt skipast veður í lofti.  Pólverjar eru farnir að lána Íslendingum fé, sem næstum fór fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar, og Færeyingar létu ekki sitt eftir liggja.  Það kemur ekki á óvart að áhugi Rússa hafi minnkað, sjá blogg mitt í síðasta mánuði.  Norðurlandaþjóðirnar munu víst skrapa saman og Norðmenn sýndu hug sinn í verki.  Merkilegt er líka að Íslendingar hafi leitað formlega til Kínverja.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verður svo væntanlega fyrir þrýstingi fra Bretum og Hollendingum en Landsbankinn rak þar innlánastarfsemi, sem skellt var í lás án formála.  Kæmi mér ekki á óvart þótt í kjölfarið fylgdu langvinn málaferli en það er víst þannig að vegna aðildar að Evrópska Efnahagssvæðinu ber Íslendingum að gera öllum þjóðernum jafn hátt undir höfði, þar með talið i setningu laga.  Það er auðvitað mikið til í því sem stjórnarvaraþingmaðurinn Mörður Árnason sagði í Silfrinu í dag að þetta er dálítið eins og landslið Íslands hafi tapað 2-14 í mikilvægum leik.  Nema hvað að nú þegar kemur að næsta mikilvæga leik við að byggja upp að nýju að þá eru sömu leikmennirnir hafðir inná og ekki búið að skipta um stjórn K.S.Í. Þjálfarar hafa nú verið látnir taka pokann sinn og gerðar breytingar á leikmannahópnum af minna tilefni.

Deilur við dómara draga úr árangri í fótbolta

Þjálfari knattspyrnuliðs Völsunga á Húsavík kveðst hafa hætt störfum vegna dómgæslu og hvernig dómarar eru búnir að haga sér gegn Völsungi þetta sumarið.  Í héraðsfréttablaðinu Skarpi er fjallað um málið í dag.  Ýmis ummæli þjálfarans fyrrverandi verða tekin fyrir hjá úrskurða- og aganefnd KSÍ, en formaður Völsungs segist vonast til að sverðin verði slíðruð.

Ég sleppi öllum palladómum um frammistöðu hins unga liðs Völsunga í sumar, en ég er tryggur stuðningsmaður liðsins.  Lengi hef ég líka haldið með Skagamönnum í efstu deild, en í þeim herbúðum er sama sorgarsagan í sumar.  Þjálfarinn heldur því fram að dómarar séu á móti Skagaliðinu og sýni þeim gul og rauð spjöld, langt umfram landsmeðaltal.  

Mér er nóg boðið og leiðist þessi umræða.  Getur verið að liðin mín nái ekki að sýna getu sína inni á vellinum af því að þjálfararnir eru uppteknir af því að kenna dómaranum um slaka frammistöðu?  Ég trúi því að betri árangur náist ef þjálfarinn sýnir leikmönnum gott fordæmi og notar krafta sína og einbeitingu í annað en að svívirða dómara fyrir þeirra störf.  Og vel á minnst; ég held að þjálfarinn á Skaganum ætti líka að taka pokann sinn, nema því aðeins að hann hætti hið snarasta þeim ósið rífa kjaft við dómarann.


Gleðilegt lýðræði sumra þingeyinga

Það eru kosningar á laugardaginn í Þingeyjarsýslu í hinu nýsameinaða sveitarfélagi Aðaldælahrepps og Þingeyjarsveitar.  Um stund leit út fyrir að einn listi væri í kjöri og þar með sjálfkjörinn.  Óljóst er hvernig þá hefði farið með kosningu íbúanna milli þeirra fjögurra nafna sem í boði eru á nýja sveitarfélagið: Aðalþing, Suðurþing, Þingdalir og Þingeyjarsveit.  Greinilegt að séríslenskir stafir eiga uppá pallborðið hjá nefndinni (say no more).  En síðan kom Gleðilistinn fram á elleftu stundu og bjargaði lýðræðislegum kosningum.  Nú getur fólk bæði strikað yfir nöfn frambjóðenda og valið nafn á sveitarfélagið.  Eða eins og maðurinn sagði. "Lýðræði er ekki grín, bara gleði".

Fordómar undir yfirskyni aulafyndni

Af gefnu tilefni rifjaði ég upp nokkur atriði varðandi fordóma. Fæstum
er gefið að tala niðrandi til náunga síns og hæðast að honum, enda á
það varla við nema í þröngum vinahópi.  Hann er vandmeðfarinn hinn
þröngsýni gálgahúmor því oft kemur hann upp um þekkingarleysi og
fordóma í garð þess sem háðinu er beint að. Fordómar eru bæði
hættulegir og særandi. Hættan felst í því að þeir geta farið að hafa
áhrif á hegðun þess sem fyrir verður og leitt til mismununar.
Einstaklingur sem dæmdur er út frá fyrirfram gefnum alhæfingum um
tiltekin hóp, er um leið sviptur möguleikanum á að sýna hver hann er í
raun og veru.  Sjálfsmyndin brotnar og líðan viðkomandi getur
versnað bæði á líkama og sál.  Fordómar eru því ekkert annað en
skaðleg vopn sem beitt er gegn heilsu fólks og veldur það vopn síst
minni skaða þó það sé notað með þröngsýna gálgahúmorinn að
yfirskyni.  Sá sem fyrir slíkri aulafyndni verður ætti að upplýsa
hinn ófyndna aula um skaðsemi háðsins og það sem að framan er ritað.

Áfram ÍA

Enn einu sinni sýna Skagamenn hvernig á að ná árangri í fótbolta.  Minnstu munaði að þeir ynnu leikinn á móti Val.  Það má sjá áhrif hins magnaða þjálfara Guðjóns Þórðarsonar skína í gegn.  Þetta hlýtur að vera góð leiktíð hjá honum og Skagaliðinu öllu.  Sérstaklega er gaman að sjá ungu strákana axla ábyrgð og standa undir henni.  Áfram ÍA.


17 íbúðir í byggingu á Húsavík en fækkar um 40 börn í grunnskólanum?

Í Skarpi, fréttablaði sem gefið er út á Húsavík, segir að 17 íbúðir séu nú í byggingu á Húsavík.  Miklar væntingar vegna fyrirhugaðs álvers á svæðinu virðast skýra það að verktakar eru að framleiða íbúðarhúsnæði til sölu.  Í haust fækkaði nemendum í grunnskólanum hins vegar um 40, að sögn kennara við skólann.  Sami kennari segir mér að fækkað hafi um 90 börn síðustu 2-3 árin.  Þessi fækkun grunnskólabarna hlýtur að þýða umtalsverða fækkun íbúa á Húsavík. 

Gott hjá Fjölni

Undanúrslitaleikurinn í VISA keppni karla var vel spilaður og góð skemmtun. Vonandi fá lánsmenn úr FH að spila úrslitaleikinn sjálfan.


Jökulsárhlaup í ágætu veðri

Hljóp úr Hólmatungum niður í Ásbyrgi; 22,1 km langa leið á laugardaginn.  Það var Jökusárhlaupið annálaða.  Norðangola var, en súld var óveruleg í fyrri hluta hlaupsins.  Bætti persónulegan árangur minn um 4 mínútur, en þetta var í þriðja skipti sem ég tek þátt í þessu bráðskemmtilega hlaupi.  Þátttakenur voru ca. 70, sem var nær helmingi minni þátttaka en í fyrra.  Og ástæðan fyrir því er auðvitað sú að "veðurfræðingar ljúga" því þeir spáðu rigningu framan af vikunni, sem fældi örugglega marga frá.  Gaman var að sjá hve margir sterkir hlauparar tóku þátt.  Og fékk ég mörg góð ráð varðandi útfærslu hlaupsins.  Ef þátttakendum hefði verið skipt upp í "hlaupara" og "skokkara" þá tilheyri ég síðarnefnda hópnum.  Fyrir mér er þetta lífstíll og ég er að keppa við sjálfan mig fyrst og fremst.

Viðhorfsbreytingar við það að verða ráðherra

Skondið að heyra ráðherra Samfylkingarinnar ýmist skipta um skoðun eða sveigja af leið í allmörgum málum eftir að þeir urðu ráðherrar.  Mikið hlýtur að vera gaman að vera ráðherra úr því fólk fórnar sannfæringu sinni fyrir það.  Nokkrar af þessum U-beygjum eru mér að skapi.  Það skal tekið fram. En kosningaloforð eru alla vega einskis virði á Íslandi í dag.

Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband