Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Þögnin ein þrumar?

Athygli mína vekur hversu vel Jóhannes Sigurjónsson kemst frá deilum og viðkvæmum málum á Húsavík.  Í nær 30 ár er hann búinn að skrifa í litlu samfélagi og er snillingur í því að komast hjá ill- og eða ritdeilum með skrifum sýnum.  Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég beið eftir Skarpi í dag, föstudaginn 23. nóvember.  Ljósvakafjölmiðlarnir og blöðin höfðu alla vikuna sagt frá djúpstæðum ágreiningi kennara við skólameistara Framhaldsskólans á Húsavík.  Ekkert birtist um málið á Skarpi.is, en í Skarpi sjálfum skrifar ritstjórinn með sínum lipra penna undir fyrirsögninni "Þögnin ein þrumar"; án þess að særa nokkurn meira en orðið er og án þess að bæta neinu við það sem þegar hefur komið fram.  Meining ritstjórans er alla vega skýr: Núna er ekki hægt þegja bara!  Þess má vænta að þögnin verði rofin, hvort sem það gerist í stjórnsýslunni eða fjölmiðlum.     

Skólaheimsóknir í Minnesota

Vikuna 21.-28. október var ég á ferðalagi í Minnesota USA með starfsfólki Framhaldsskólans á Laugum.  Erindi okkar var að kynnast skólastarfi með tilliti til þess þróunarverkefnis, sem hófst í fyrra að Laugum.  Þeir skólar sem við heimsóttum lögðu mikið upp úr námsaðferðinni "Learning by doing" líka nefnt "Discovery based learning" eða á ylhýra málinu "Uppgötvunarnám".  Skemmst er frá því að segja að við lærðum heilmikið um aðferðafræðina þessa viku sem við stöldruðum við í Minnesota.  Þessar skólaheimsóknir eru gott innlegg í þá þróunarvinnu sem stendur yfir á Laugum.

Er afskaplega fátt sem við vitum alveg fyrir víst?

Ég var að lesa um Sókrates.  Gott væri ef fólk grennslaðist oftar fyrir um skoðanir sínar og tæki þeim ekki að gefnu sem sannleika án þess að kanna heimildir.  „Gagnrýnin hugsun“ felst í því að ekki er fallist á neitt nema það sem rannsakað hefur verið.  Sókrates taldi að fólk væri ekki illt að upplagi en það gerði öðrum illt með því að missa sjónar á sannleikanum.  Það skorti bara þekkingu og yfirsýn. Sjálfur reyndi hann sjálfan sig og viðmælendur sína í rökræðum um ólíklegustu mál.  Viðmælendurnir lentu stundum út af sporinu eða komust í mótsögn við sjálfa sig, svo slyngur var Sókrates í rökræðum.  En markmið hans var  ekki að gera lítið úr fólki heldur að kenna því að hugsa rétt. Ryðja burt fordómum og brjóta málin til mergjar áður en komist væri að niðurstöðu. Sjálfur sagðist hann vita það eitt að hann vissi ekki neitt!

Norðanátt út vikuna, eða hvað?

Í langtímaspá fyrir vikuna er gert ráð fyrir norðanátt.  Það voru frekar litlar fréttir.  Norðanátt hefur verið ríkjandi vindátt frá því í apríl hér norðanlands.  Koma svo, sunnanvindar.  Það er gert ráð fyrir viðsnúningi á sunnudag, sem er degi of seint fyrir hið magnaða Jökulsárhlaup.  En það þýðir ekkert að spá í veðrið.  Það er alltaf eitthvað bogið við það hvort eð er.  Í fyrra var alltof heitt í Jökulsárhlaupinu, en í hitteðfyrra nokkuð góðar aðstæður þó súldarloft og létt norðangjóla væri á móti.


Fé án hirðis tímaskekkja á tímum sérhyggju?

Voru samvinnufélögin sem slík orðin tímaskekkja á tímum sérhyggju og einkaframtaks í lok 20. aldar? Félagsformið þreytt með keim af forsjárhyggju? Ekki var nógu vel skilgreint hverjir ættu félögin. Þarna er komið að hugtakinu fé/eignir án hirðis, sem er hin félagslega eign.
Félagsmenn hafa með fórnfýsi og sjálfboðastarfi  staðið fyrir stórum verkefnum í þágu amennings.  Jafnvel með svæðisbundna hagsmuni að leiðarljósi. Það hafa þeir jafnvel gert með sáralítið fé milli handa.  Seinni kynslóðir nutu svo góðs af.  Einstaklingshyggja íslendinga nú á tímum er mikil, en það er gagnrýnivert ef fáir einstaklingar eigna sér arf kynslóðanna með þeim rökum að einhver verði að hirða um hann. Hér vantar haldbærari rök en þau að félagsleg eign sé tímaskekkja á tímum sérhyggju.

Að finna eigendur fyrir fjár án hirðis

Hlutafjárvæðing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis orkar tvímælis að mínu mati. Hefur einhver náð að maka krókinn og náð forræði yfir annarra fé?  Það er vel hugsanlegt og þá um leið algerlega siðlaust.   Getur verið að stofnfjáreigendur hafi verið keyptir til þess að afsala sér því gæsluhlutverki sem þeim ber að sinna gagnvart félagslegri sameign eða sjálfseign sem er uppistaða sparisjóðanna? Hvað gengur mönnum til sem segjast leita að eigendum fjár án hirðis? Getur verið að þeim svíði undan þeirri staðreynd eða þá að að þeir skilji ekki tilgang þess, að til skuli vera félagslegt eignarhald af því tagi sem sparisjóðirnir eru grundvallaðir á.  Eða er einhverjar skýringar að finna í því að í gegnum tíðina hefur ekki tekist að uppfæra leikreglur um samvinnufélög og sparisjóði á sama tíma og hlutafélagaformið svínvirkar lagalega og í praksís.  Mun meira síðar.  

Óráðstafað eigið fé - Fé án hirðis

Sérstakan áhuga minn vekja mál þar sem tekist er á um óráðstafað eigið fé samvinnufélaga og sparisjóða.  Og nú síðast Samvinnutrygginga GT, sem stendur fyrir gagnkvæmt tryggingafélag en ekki samvinnufélag.  Þegar kemur að því að ráðstafa hinu áður óráðstafaða fé virðast mörg ljón á veginum.  Vandamálið er langt í frá nýtilkomið, en vandræðagangur hefur ávallt einkennt uppfærslu laga á alþingi sem lúta að samvinnufélögum.  Á sama tíma hefur löggjöf um hlutafélög fallið í kramið.  Miklu meira um þetta síðar.


Glæsilegar samgöngubætur á Austurlandi

Glæsilegt að setja 1,2 milljarða í veginn um Öxi, sem styttir hringveginn um 60 km. Og ekki er síðra að flýta Norðfjarðargöngum til ársins 2012, ekki vanþörf á.  Góðar fréttir þetta. Síðan má auðvitað velta fyrir sér afhverju nýr samgönguráðherra setti EKKI fé í Vaðlaheiðargöng við þetta tækifæri.

Litróf kennsluaðferða

Sat fundi með Ingvari Sigurgeirssyni frá KHÍ í dag.  Tilefnið var þróunarverkefni við Framhaldsskólann á Laugum sem stendur yfir í þrjú ár.  Eitt ár er nú liðið.  Þetta er spennandi verkefni og í mörg horn að líta.

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband