Færsluflokkur: Lífstíll

Fjögurra skóga hlaup í Fnjóskadal

Nýtt hlaup, Fjögurra skóga hlaupið fer fram í suðurhluta Fnjóskadals 23. júlí nk. Hægt verður að velja um fjórar vegalengdir 4.3 km.   9.3 km. 17.1 km. og 28.8 km. Öll hlaupin enda á sama stað, á íþróttavelli umf. Bjarma sem staðsettur er við þjóðveg 1. austan brúarinnar yfir Fnjóská. Keppendur mæta á Bjarmavöllinn þar sem boðið verður upp á akstur á upphafsstaði. Ræst verður í hlaupin á mismunandi tíma, lengstu vegalengdina fyrst. Allar vegalengdirnar sameinast við gróðrarstöðina í Vaglaskógi síðustu 4.3 km. Þeir skógar sem hlaupið er eftir eru: Vaglaskógur , Lundsskógur, Þórðarstaðaskógur og Reykjaskógur.  Vakin er athygli á þessu hlaupi og bent á heimasíðuna   http://thinghlaup.wordpress.com/

 


Gamlárshlaup á Húsavík 31.12.2010

husavikHljóp gamlárshlaup á Húsavík annað árið í röð.  Hlaupið er frá Sundlauginni upp Laugarbrekkuna, niður að kísilskemmu og eftir fjörunni um bryggjusvæðið allt suður að sláturhúsi.  Þar er farið upp á bakkann og hlaupin Garðarsbrautin norður.  Beygt er upp Ásgarðsveginn og farið fram hjá Framhaldsskólanum um Vallholtsveg, bak við mjólkurstöðina og að sundlauginni.  Síðan annar eins hringur.  Ég náði ungum manni áður en fyrri hringurinn var hálfnaður og ákvað að líma mig bara á hann.  Hafði ekki meiri metnað varðandi tíma.  Ég átti auðvelt með að fylgja honum og það hvarflaði ekki að mér að fara í endasprett við þennan "héra" minn sem ég var búinn að nota 70% af hlaupinu. En hann tók þessu alvarlega og ætlaði alveg að sprengja sig til að halda sætinu.Gaman að þessu, en vert að muna að það er hægt að hafa gaman af svona uppákomum án þess að keppa og metast. Það er mín skoðun.

Hin árlega Þingeyska þríþraut haldin í 9. sinn

beint a hjolid

Þríþrautin fór fram 15. ágúst 2010 á Laugum.  Hjólað var að Tjörn og til baka, en hlaupinn Austurhlíðarhringur. Stoppað var á milli sunds og hjóls, sem kemur í veg fyrir að árangur keppenda sé skráður löglega á afrekaskra.  Til stendur að breyta þessu á næsta ári. Við Kári Páll og Gísli fengum liðsstyrk hjólahópsins á Bjargi við undirbúning.  Vel var að honum staðið og allt fór vel fram.  Um 25 keppendur voru mættir og veður var prýðilegt.  Gaman að sjá fólk koma alltaf aftur og aftur á Lauga til að taka þátt í þessu ágæta móti.  Nú þurfum við Kári að halda það einu sinni enn til að geta státað okkur af því að hafa leyst þessa þraut 10 ár í röð.

 

 

 


Skógarhlaup í Hallormstað

skogurGóðkunningi minn Kári Valur hitti mig fyrir utan Bónus verslunina á Egilsstöðum í lok júni 2010.  Spurði hvort ég kæmi ekki í Skógarhlaupið á Hallormsstað.  Ég hélt nú það.  Hitinn var um 20° minnir mig og fyrsta drykkjarstöð ekki fyrr en eftir 7 km.  En falleg var leiðin og mikið á fótinn fyrri hluta hlaups.  Þetta voru 14 km og frábær upplifun.  Mikið er til að fallegum keppnisstöðum fyrir almenningsíþróttir á Íslandi.  Á eftir var varið í Sundlaugina á Hallormsstað og svo á skemmtun í skóginum með fjölskyldunni.  Ógleymanlegur dagur.

Fyrsta maraþonið

Fyrsta maraþonið mitt var Mývatnsmaraþon við ágætar aðstæður 29. maí 2010.  Ég hljóp með áætlun uppá 5 mín og 30 sek pr. km. Ætlaði að halda því fyrstu 30 km og gekk það prýðilega eftir.  Síðan fór að þyngjast verulega , eins og búast mátti við því svona hlaup hefst eftir 30 km segja margir.  Samt náði ég fram úr tveimur hlaupurum á seinni hlutanum. Þessi skynsamlega útfærsla tryggði að ég náði takmarkinu sem var að klára á undir 4 klst.  Kláraði mig ekki alveg því ég var bara góður i skrokknum á eftir og afskaplega sáttur auðvitað.  Tími minn var 3:56,59.

  nordurland_myvatn


Gamlárshlaup á Húsavík

Reykjavíkurmaraþon 2006Gamlárshlaup var haldið í fyrsta skipti á Húsavík á gamlársdag 2009 og fór það fram í góðu veðri. Logn var, frost um -1 gráða en nokkuð hált var undir fæti. Þátttaka var mjög góð en um 40 manns hlupu eða gengu þær vegalengdir sem í boði voru.  Að sögn Ingólfs Freyssonar eins þeirra sem að hlaupinu stóðu mættu margir í búningum sem gerði hlaupið lifandi og skemmtilegt. Það hófst með því að rakettu var skotið á loft og þegar þátttakendur komu í mark var þeim boðið í sund í Sundlaug Húsavíkur. (úrdráttur úr frétt 640.is)

Lofsvert framtak hjá Húsvíkingum. Ég hljóp þetta á slökum tíma, en hafði gaman af því engu að síður.  Verð vonandi í betra formi að ári, en ástæða er til að ætla að þetta hlaup sé komið til að vera. Til hamingju með það, Guðmundur Árni, Guðrún, Ingólfur og co.

 Myndin er frá Reykjavíkurmaraþoni 2006.


Jökulsárhlaupið besta hlaup ársins 2008

Hlauparar á Íslandi kusu Jökulsárhlaupið besta hlaup ársins 2008. Kosningin fór fram á www.hlaup.is og fékk hlaupið 9,2 í meðaleinkunn.  Einstakir þættir hlaupsins hlutu eftirtaldar einkunnir: Skipulagning 9,6. Hlaupaleið 9,2.  Brautarvarsla 10.0 og Tímataka 9,2 svo dæmi séu nefnd. Hlaupið 2008 var sérstaklega vel heppnað, yfir 160 manns tóku þátt í mjög góðu veðri, var jafnvel of heitt.

jokulsarhlaup.jpgHlaupnar eru þrjár vegalengdir í Jökulsárhlaupinu: Frá Dettifossi, Hólmatungum og Vesturdal. Fyrsta hlaupið var haldið árið 2004 og þá í boði Kelduneshrepps. Frumkvæðið að hlaupinu átti Katrín Eymundsdóttir og óska ég henni og sveitungum hennar Keldhverfungum til hamingju, en um 30 sjálfboðaliðar koma að framkvæmd hlaupsins árlega. Án þeirra væri þetta ekki hægt.

Jökulsárhlaupið í ár verður haldið 25. júlí og ég stefni á að mæta í 5. sinn. Það kæmi mér ekki á óvart að þátttaka yrði góð vegna þess að þetta er sennilega skemmtilegasta utanvegahlaup sem í boði er á Íslandi og mjög vel er að þessum viðburði staðið. 


Í leit að nýju markmiði

rm08__mg_3655Um síðustu helgi hljóp ég hálft maraþon í Reykjavík og bætti mig um tæpar tvær mínútur.  Ég sá marga sem ég þekkti í rásmarkinu og var næstum búinn að gleyma mér, því ég var seinn að koma mér fyrir og hefði mátt teygja betur fyrir hlaupið.  Þarna rakst ég á Þorberg Inga Jónsson, norðfirðinginn fráa, sem var í startholunum með að setja besta tíma íslendinga þetta árið.  Sjónvarpið sá ástæðu til að mynda okkur þar sem við stóðum í klósettröðinni við MR.  Á Nesveginum hljóp ég samhliða Eiði Aðalgeirs, frænda mínum, sem er ein af fyrirmyndum mínum hvað varðar langhlaup og þolraunir.  Ætli hann sé ekki sá íslendingur sem hlaupið hefur flest maraþonhlaup, nokkrum fleiri en Trausti Valdimarsson læknir?  Við gáfum okkur tíma til að spjalla á leiðinni, en svo seig hann framúr, enda þaulvanur hlaupari á ferð.  Aðstæður voru mjög góðar og þetta var vonandi frábært hlaup fyrir alla.

Mínar æfingar og keppnir gengu vel þetta sumarið.  Um miðjan ágúst leysti ég Þingeysku þríþrautina á rúmlega 4 mínútum skemmri tíma en áður.  Í lok júlí var ég tæpum tveimur mínútum fljótari með 21,1 km í Jökulsárhlaupinu.  Fjórða alvöruhlaupið á keppnistímabilinu var svo Mývatsnsmaraþon í lok maí, sem gekk líka vel.  Nú er að finna sér ný markmið í keppnum, en ég á að baki 7x 1/2 maraþon, 1x 27 km óbyggðahlaup, 3x Ólympíska þríÞraut og 4x 1/2 þraut.  Það virðist því ekki vera út úr kortinu að  stefna á 1x maraþonhlaup fyrir 45 ára afmælið á næsta ári.


Venjulegt fólk í þríþraut á Laugum

thrithraut_sund.jpg23 þátttakendur voru í árlegri Þingeyskri þríþraut númer 7, sem haldin var í fjórða sinn á Laugum en þar áður þrisvar sinnum á Húsavík.  6 konur leystu þraut og 17 karlar.  12 þátttakendur voru af höfuðborgarsvæðinu, 6 frá Akureyri en 5 Þingeyingar.  Treglega hefur gengið að auka hlut Norðlendinga og þá sérstaklega Þingeyinga, en á sama tíma fjölgar þátttakendum að sunnan verulega.  Þríþrautarmeistari kvenna 2008 var María Ögn Guðmundsdóttir, Mosfellsbæ en hinn öflugi íþróttamaður Steinn Jóhannsson, Hafnarfirði, sigraði með fáheyrðum yfirburðum í karlaflokki.  Þórey Rósa Einarsdóttir, Reykjavík, var fljótust kvenna með hálfa þraut og Stefán Viðar Sigtryggsson, Kópavogi, stakk karlana af í hálfri þraut.  Tímarnir eru væntanlegir á www.hlaup.is

Í þríþrautinni má sjá þrautþjálfað keppnisfólk því nokkrir eru á leið til Þýskalands í næsta mánuði að keppa í járnkalli (ironman).  En svo eru líka trimmarar og fólk sem keppir bara við sjálft sig.  Reyndar var það svo í fyrstu þríþrautinni árið 2002 að fólk þurfti að biðja um tímatöku, en flestir létu sér nægja viðmiðið "lokið" og "ekki lokið".  Í þeim anda er þríþrautin okkar á Laugum.  Við viljum fá almenning til að taka þátt í sundi, hjólreiðum og hlaupum.  Eða eins og ágætur starfsmaður þríþrautarinnar sagði eftir að hafa fylgst með ánægðu fólki á besta aldri koma í mark.  "Ég hefði átt að vera með sjálf.  Hér er fullt af venjulegu fólki, en ekki bara keppnisfólk".  


Risinn rumskaði á nýrri öld

risinn_rumskar.jpgÉg var einn af leikmönnum knattspyrnuliðs umf. Tjörness sem komu saman á mærudögum á Húsavík í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá því að við spiluðum síðast saman.  Það var í Íslandsmótinu í 4. deild, eins og það hét þá, og voru Tjörnesingar með afar sigursælt lið.  Færa má sönnur á það með því að fletta upp Víkurblaðinu með skrifum Jóhannesar Sigurjónssonar á árunum 1984 til 1986.  Ennfremur eru bækurnar Íslensk knattspyrna, eftir Víði Sigurðsson örugg heimild um stórveldið Tjörnes á knattspyrnvöllum þess tíma.  Í tilefni endurfundanna voru stuðningsaðilar fengnir til að kaupa búninga á liðið og stuðningsmenn fjölmenntu á völlinn.  Auðvitað átti að hafa gaman af þessu, en ekki var laust við að gamall metnaður tæki sig upp í brjóstum leikmanna Tjörness, sem ekki vildu valda stuðningsmönnum sínum vonbrigðum.  Og enn síður máttu þeir til þess hugsa að skuggi félli á ljómann af goðsögninni um hið ósigrandi knattspyrnulið Tjörness.  En sumir spiluðu  meira af vilja en mætti því tímans tönn hafði nagað margan dáðadrenginn.  Allmargir höfðu safnað aukakílóum og kyrrseta og velmegun dregið úr snerpu á  liðnum aldarfjórðungi.  Fór því svo að lokum að úrvalslið Suður-Þingeyinga, sem voru andstæðingar okkar, mörðu nauman sigur á okkur Tjörnesingum, með 4 mörkum gegn 3.  Ekki dugðu heldur lúmska herbragðið að senda alla varamenninna inná þegar 2 mínútur voru eftir til að freista þess að jafna. Síðasta spyrna leiksins var svo þrumuskot uppundir þverslána, en leikmaður úrvalsliðsins varði hann þar með hendi.  Þar bar dómaranum að lyfta lituðu spjaldi og dæma vítið, sem hefði tryggt okkur vítakeppnina með sigri. En dómarinn ræður í drengilegum leik. Risinn hafði jú rumskað  en laut svo í gras með sæmd.

Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband