Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Í leit að nýju markmiði

rm08__mg_3655Um síðustu helgi hljóp ég hálft maraþon í Reykjavík og bætti mig um tæpar tvær mínútur.  Ég sá marga sem ég þekkti í rásmarkinu og var næstum búinn að gleyma mér, því ég var seinn að koma mér fyrir og hefði mátt teygja betur fyrir hlaupið.  Þarna rakst ég á Þorberg Inga Jónsson, norðfirðinginn fráa, sem var í startholunum með að setja besta tíma íslendinga þetta árið.  Sjónvarpið sá ástæðu til að mynda okkur þar sem við stóðum í klósettröðinni við MR.  Á Nesveginum hljóp ég samhliða Eiði Aðalgeirs, frænda mínum, sem er ein af fyrirmyndum mínum hvað varðar langhlaup og þolraunir.  Ætli hann sé ekki sá íslendingur sem hlaupið hefur flest maraþonhlaup, nokkrum fleiri en Trausti Valdimarsson læknir?  Við gáfum okkur tíma til að spjalla á leiðinni, en svo seig hann framúr, enda þaulvanur hlaupari á ferð.  Aðstæður voru mjög góðar og þetta var vonandi frábært hlaup fyrir alla.

Mínar æfingar og keppnir gengu vel þetta sumarið.  Um miðjan ágúst leysti ég Þingeysku þríþrautina á rúmlega 4 mínútum skemmri tíma en áður.  Í lok júlí var ég tæpum tveimur mínútum fljótari með 21,1 km í Jökulsárhlaupinu.  Fjórða alvöruhlaupið á keppnistímabilinu var svo Mývatsnsmaraþon í lok maí, sem gekk líka vel.  Nú er að finna sér ný markmið í keppnum, en ég á að baki 7x 1/2 maraþon, 1x 27 km óbyggðahlaup, 3x Ólympíska þríÞraut og 4x 1/2 þraut.  Það virðist því ekki vera út úr kortinu að  stefna á 1x maraþonhlaup fyrir 45 ára afmælið á næsta ári.


Venjulegt fólk í þríþraut á Laugum

thrithraut_sund.jpg23 þátttakendur voru í árlegri Þingeyskri þríþraut númer 7, sem haldin var í fjórða sinn á Laugum en þar áður þrisvar sinnum á Húsavík.  6 konur leystu þraut og 17 karlar.  12 þátttakendur voru af höfuðborgarsvæðinu, 6 frá Akureyri en 5 Þingeyingar.  Treglega hefur gengið að auka hlut Norðlendinga og þá sérstaklega Þingeyinga, en á sama tíma fjölgar þátttakendum að sunnan verulega.  Þríþrautarmeistari kvenna 2008 var María Ögn Guðmundsdóttir, Mosfellsbæ en hinn öflugi íþróttamaður Steinn Jóhannsson, Hafnarfirði, sigraði með fáheyrðum yfirburðum í karlaflokki.  Þórey Rósa Einarsdóttir, Reykjavík, var fljótust kvenna með hálfa þraut og Stefán Viðar Sigtryggsson, Kópavogi, stakk karlana af í hálfri þraut.  Tímarnir eru væntanlegir á www.hlaup.is

Í þríþrautinni má sjá þrautþjálfað keppnisfólk því nokkrir eru á leið til Þýskalands í næsta mánuði að keppa í járnkalli (ironman).  En svo eru líka trimmarar og fólk sem keppir bara við sjálft sig.  Reyndar var það svo í fyrstu þríþrautinni árið 2002 að fólk þurfti að biðja um tímatöku, en flestir létu sér nægja viðmiðið "lokið" og "ekki lokið".  Í þeim anda er þríþrautin okkar á Laugum.  Við viljum fá almenning til að taka þátt í sundi, hjólreiðum og hlaupum.  Eða eins og ágætur starfsmaður þríþrautarinnar sagði eftir að hafa fylgst með ánægðu fólki á besta aldri koma í mark.  "Ég hefði átt að vera með sjálf.  Hér er fullt af venjulegu fólki, en ekki bara keppnisfólk".  


Úrskurð umhverfisráðherra þurfti að segja mér þrisvar

Í lok júlímánaðar felldi umhverfisráðherra úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá því í febrúar um að ekki þurfi að meta umhverfisáhrif sameiginlega af öllum framkvæmdum tengdum álveri á Bakka við Húsavík.  

Þetta kemur á óvart í ljósi þess að í apríl á þessu ári hafnaði sami ráðherra kröfu Landverndar um að fella ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi.  Ráðherrann hafnaði í apríl kröfu Landverndar á þeim forsendum að matsferlið væri komið of langt, en kúventi svo afstöðu sinni í lok júlí.

Nú mun þurfa að meta umhverfisáhrif á öllu í senn; álverinu, Þeistareykjavirkjun, Kröfluvirkjun II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur.  "Lengir ferlið um nokkrar vikur eða mánuði", segja sumir.  En það veit enginn, því umhverfismat hefur ekki verið gert áður með þessum hætti í landinu.

Ég skil þetta ekki og lét segja mér fréttirnar þrisvar.  Alla vega passar þetta ekki við afstöðu sama stjórnvalds t.d. til álvers í Helguvík.  Er hér verið að gera upp á milli byggðalaga eða kjördæma?  Pólitík og stefnumál t.d. um hið "fagra Ísland" eru eitt; þá kippir enginn sér upp við ósamræmi milli missera.  Embættisfærsla framkvæmdavaldsins í landinu er annað.  Þar skal gæta jafnræðis, heilinda og festu.  Þetta er því grafalvarlegt mál.


Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband