Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ræða Vilmundar Gylfasonar frá 1982 (seinni hluti).


Hefur ekkert breyst í 30 ár? (fyrri hluti)


Jafnræðisreglan og endurreisn bankakerfisins

Jafnræðisregluna er að finna í 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og hljóðar svo:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Jafnræðisreglan var sett í stjórnarskrána árið 1995 er talið að hún hafi réttarfarslegt gildi fyrir þann tíma sem óskráð regla.  Markmið reglunnar er að koma í veg fyrir ómálefnalega mismununun; að sambærileg mál fái sambærilega úrlausn.  Athyglisvert er að reglan bannar ekki mismunun sem slíka heldur bannar hún mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. (heimild: Vísindavefurinn)

Heimfæra má jafnræðisregluna á viðskiptalífið með algengri réttarheimild, sem er lögjöfnun.  Ef regla gildir um A en ekki um B, og A og B eru sambærileg tilfelli, má beita reglum um A á B! Neyðarlögin hljóta t.d. að vera á dökkgráu svæði varðandi mismunun íslenskra og erlendra innistæðueigenda í bönkunum á þeim tíma.  Og afar umhugsunarvert er hvort inngrip og fjárframlög ríksisins í ca. 99% af bankamarkaðinum feli í sér mismunun gagnvart þeim örfáu sparisjóðum sem ekki þáðu ríkisaðstoð.  En þessi atriði eru þó bara sýnishorn af miklu úrvali dæma í endurreisn bankakerfisins sem ekki er víst að standist jafnræðisregluna.


Nýja Ísland óvelkomið?

Soffía Anna Steinarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Dvalarheimilisins Hvamms á Húsavík, setti nokkur orð á blað um hlutverk stjórna öldrunarstofnana á Íslandi.  Hún gerði grein fyrir því að á Hvammi er stjórnin valin pólitískt og segist sjálf sannfærð um að ef stjórnir þessara stofnana væru mannaðar fagfólki, t.d. læknum, hjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum, viðskiptafræðingum eða lögfræðingum - í stað stjórnmálamanna, - þá væru þær virkari og gerðu meira gagn. 

Ég las grein Soffíu þegar henni var sagt upp störfum.  Ástæðan fyrir uppsögninni m.a. sögð ósanngjörn gagnrýni á stjórn Hvamms í þessari grein.  Það gat ég engan veginn lesið úr þessum skrifum. Þarna er einfaldlega um að ræða gagnrýni og skoðanir þess sem þekkir til og hefur áhuga á úrbótum.  Greinin er ágætlega skrifuð, skýr og hæfilega löng. Hún ætti að vera velkomin og sjálfsögð í umræðu og skoðanaskipti um úrbætur. - Engin brottrekstrarsök. 

Hér virðast stjórnmálamennirnir gleyma hugmyndinni um hið "Nýja Ísland" í kjölfar hrunsins.  Viðbrögð fulltrúa pólitíkurinnar við þessum skrifum voru í það minnsta önnur en mín.  Um allt aðra túlkun þeirra á skoðunum Soffíu geta áhugasamir lesið í héraðsfréttablaðinu Skarpi.   


Upp með búsáhöldin á ný

Það sem sést hefur af kosningabaráttu lofar ekki góðu. Það er þreytandi að horfa á frambjóðendur röfla sömu gömlu þvæluna í ljósvakamiðlunum og heyrst hefur fyrir margar undangengnar kosningar. Bregði þeir aðeins út af andlausum upptalningum eftir forskrift flokksræðis ættu þáttastjórnendur að  krosspyrja þá til að ná einhverju bitastæðu fram. En þáttastjórnendurnir eru vanafastir og halda að um mismæli hafi verið að ræða eða reyna að þvinga svar sem passar við jarm undangenginna áratuga. Þetta er litlaust með öllu enn sem komið er . En nú eru þær aðstæður uppi í þjóðfélaginu að einstaklingar hljóta að stíga fram sem þora að taka á t.d. siðspillingunni og samtryggingunni. Hvar er nú fólk á borð við Jónas Jónsson frá Hriflu og Vilmund Gylfason?  Voru búsáhöldin barin til einskis?

Um ófullkomna samkeppni á Íslandi

Getur verið að efnahags- og kerfishrunið á Íslandi megi rekja til ofnotkunar og oftrúar á frjálshyggju við aðstæður þar sem hún gat aldrei notið sín. Getur verið að það kerfi að nota peninga sem mælikvarða og aðgöngumiða að völdum sé bara ekki að virka á Íslandi. Að markaðshagkerfi okkar tíma með blindri trú á nýfrjálshyggju passi íslendingum ekki. Getur verið að félagsleg form í viðskiptalífinu, s.s. samvinna fólks, hafi ekki verið svo glötuð þegar upp er staðið?

Samvinnuhreyfingin lá undir ámæli um fákeppni og einkasölu, eftir 100 ára sögu viðskipta á Íslandi. En fákeppni og einkasala einkennir einmitt íslensk fyrirtæk í nýfrjálshyggjunni. Þau komust í þá stöðu á fáeinum árum á heimamarkaði.  Og samkeppni var eyðilögð á mettíma. Nýfrjálshyggjan kom íslendingum í verri stöðu hvað varðar samkeppnismál. Nú er talað um það sem lausn að setja strangari reglur um nýfrjálshyggjuna. Kannski á að setja reglur um að leyfa "latt fé" í félögum svo grípa megi til þess þegar kreppir að? Eða banna fólki að hirða sameiginlega sjóði forfeðranna með þeim rökum að enginn sé að nota þá? Sumir benda líka á að með því að komast í Evrópusambandið skapist tækifæri fyrir íslensku fyritækin að taka þátt í alvöru samkeppni.  Það tel ég ólíklegt í ljósi þesss að Ísland hefur verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu frá árinu 1994 án þess að það hafi ýtt undir samkeppni innanlands. Sárafá Evrópsk fyrirtæki hafa horft til Íslands og sum þeirra hafa hætt við að koma. 

Svo virðiðst sem  Kína sé  ekki á sama hátt næmt fyrir dominoáhrifum efnahagshrunsins eins og sumar Vesturlandaþjóðir. Það ætla ég alla vega að vona.  Kína virðist standa betur en þær þjóðir sem markvisst færðu alla stjórnun á viðskiptum til "markaðarins" í nýfrjálshyggjubylgju sem gekk yfir Vesturlönd frá Thatcher-Reagan tímanum. 

1936

 

 


Fyrir löngu var komin tími á vinstri beygju Framsóknar

Þingmenninir 7 af lista Framsóknarflokksins hafa verið að týna tölunni síðustu vikur.  Tveir hafa sagt af sér og a.m.k. tveir gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Það telst umtalsverð endurnýjun í gamalgrónum flokki.  Ýmsar ástæður eru gefnar upp.  Allt frá því að hafa óvart ýtt á Enter í tölvupósti til þess að segjast vilja víkja fyrir yngra fólki.  Mig grunar að til að leysa úr vanda flokksins þurfi nú naflaskoðun til að skilgreina hlutverk flokksins.  Ráðlegt er að beygja umtalsvert til vinstri. Kannski liggur beinast við að hverfa aftur til fortíðar og skipta þessum þó litla flokki í tvennt.  Landsbyggðarflokk, eins og hann var þegar hann var stærstur, og höfuðborgararm sem gæti umsvifaust liðsinnt Samfylkingunni t.d. í því að ganga í Evrópusambandið.  Tilburðir framsóknarmanna við að ná fylgi í borginni hafa gengið fremur illa og ég spyr mig hvort á þeim vígstöðvum hafi verið fórnað því sem flokkurinn ætti að standa fyrir.  Ekki síst nú á krepputímum.  Það er að vera málsvari landsbyggðarinnar og grunnatvinnuvega þjóðarinnar. Það er þörf fyrir félagslega samstöðu og samvinnu fólksins í landinu. Burt með græðgina og spillingarliðið.


Friðsamleg mótmæli takk

Mótmælendum er að takast að gera friðsamlega hallarbyltingu. Tilgangurinn er auðvitað sá að skipta út glórulausum leikmönnum sem eru rúnir trausti.  En það er enginn tilgangur í því að slást við lögregluna og kasta yfir hana matvælum.  Sagan mun fella betri dóma um friðsamlega byltingu á lýðræðislegum nótum. Mótmælendur mega ekki klikka á þessu grundvallaratriði á síðustu metrunum. Það er stutt þangað til ríkisstjórnin fellur. Í kjölfarið þarf að manna aftur þær stöður og þau embætti þar sem  flokkshagsmunir voru teknir fram yfir almannahag.  Burt með spillingarliðið.

Velkomin til erfiðis, Sigmundur Davíð

Framsóknarflokkurinn hafði bæði úr hæfum konum og mönnum að velja á flokksþinginu. Það veit á gott og kynslóðaskiptin sem urðu hljóta að leggja línurnar fyrir hina flokkana.  Sigmundur Davíð og Höskuldur eru báðir mjög frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins, með Eygló Harðardóttur sem annað nýtt nafn,  hefur yfir sér ferskt yfirbragð. Byrjunin var að vísu farsakennd þegar tími Höskuldar kom í 5 mínútur og fór svo aftur.  Ég leyfi mér að óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er bráðnauðsynlegt fyrir íslendinga að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs í stjórnmálunum núna.  Velkomin til erfiðis, ný forysta Framsóknar.


Pólitísk fagmennska í embættisveitingum

Umræða um stöðuveitingu setts dómsmálaráðherra rétt fyrir jólin 2007 er áfram til umræðu.  Þegar Árni Matthiesen (D) skipaði Þorstein Davíðsson dómara við héraðsdóm Norðurlands og héraðsdóm Austurlands. Kastljósið ætlar ekki að láta þetta gleymast því þrisvar var málið til umfjöllunar í síðustu viku. En það er einmitt málið.  Ráðamenn humma svona mál fram af sér og þjóðin gleymir þeim.  En kastljósið mætti skoða embættisveitingar sem þessa frá annari hlið. Hin faglega vinna sem fara á fram í hæfnisnefnd um opinberar stöðuveitingar líður oft fyrir pólitíska skipan í nefndirnar sjálfar. Pólitíska einsleitni í nefndunum, sem varla er tilviljun. Dæmi eru um að í þriggja manna hæfnisnefnd hafi setið eingöngu flokksbundið fólk í sama flokki. Þeirra á meðal einstaklingur sem á sama tíma var í prófkjöri fyrir flokkinn. Og annar sem gegndi pólitískum trúnaðarstörfum á vegum flokksins. Þetta fólk valdi auðvitað flokksbróðir sinn hæfastan umsækjanda.  Þetta er gamla Íslands og það sem veldur samfélaginu hvað mestu tjóni nú um stundir. Þetta er "Helvítis fokking fokk". Ég segi: "Burt með spillingarliðið".

Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • husavik
  • beint a hjolid
  • skogur
  • husavik
  • jlo2 jpg 475x600 sharpen q95[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband