Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Áfram ÍA og hvað varð um ÍBK?

Skagamenn eru á góðri leið í efstu deild karla.  Sérstaklega hefur gengið vel um miðbik keppninnar.  Á sama tíma eru Keflvíkingar heillum horfnir.  Ég er að velta því fyrir mér hvort atvikið umdeilda þegar Bjarni skoraði "óvart" fyrir ÍA á móti þeim í byrjun júlí sitji i þeim.  Það virðist hafa orðið vendipunktur fyrir ÍBK, en ég minnist þess að liðið var frábærlega spilandi í fyrstu leikjum mótsins.  Síðan þetta slysamark var sett gegn ÍBK hafa þeir varla fengið stig.  Getur verið að þetta eina atvik skýri hrun Keflvíkinga?


Góður árangur í Þingeyskri þríþraut

Þingeysk þríþraut var haldinn í 6. sinn þann 12. ágúst síðastliðinn.  Alls tóku 18 þátt í þrautinni að þessu sinni, þar af reyndu 11 við heila þraut.  Afar góður árangur náðist að þessu sinni.  Bryndís Arnarsdóttir sigraði í kvennaflokki og Steinn Jóhannsson í karlaflokki.  Þau náðu mjög góðum tímum, en geta má þess að Jens Viktor Kristjánsson, formaður Þríþrautafélags Reykjavíkur, náði besta hjólatímanum 1.11,08 með 40 kílómetra.  Steinn náði frábærum tímum í hlaupi eða 40,15 mínum að meðtöldum skiptitíma eftir að stigið var af hjólinu.  Sundtími Steins var ótrúlega góður líka, eða 19,57 mín með 1500 metrana.  Bryndís hjólaði afar vel og var 1.25,15 klst með 40 kílómetrana, en hún hljóp 10 km á ca. 1 klst.  Það var svo systir mín Hólmfríður Aðalsteinsdóttir sem náði bestum tíma kvenna í 1500 metra sundi, eða 27,38 mín. Og ekki má gleyma því að hin systir mín Arnfríður Aðalsteinsdóttir synti 500 metrana best allra á 9,19 mín. 

Þar fór Þorbergur sem fuglinn fljúgandi

Barðsneshlaupið var rúmlega hálfnað. Ég var á hlaupum, að því er mér fannst, í Búlandinu eftir að hafa klöngrast niður Götuhjallann ógurlega.  Götuhjallinn er í 200 metra hæð yfir sjó og á köflum er um einstigi að fara þannig að leiðin er ekki fyrir lofthrædda.  Á þessum slóðum þurfti ég að fara ofan í fjölmarga smálæki sem runnu úr brattri hlíðinni, stikla á steinum og stíga svo upp úr á hinum bakkanum.  Reyndist þetta mér mikið erfiði.  Þar sem ég var staddur ofan í einum þessara skorninga er slegið laust á bakið á mér og ég lít upp.  Sé ég þá nánast undir skósólana á "Norðfirðingnun þindarlausa" Þorbergi Jónssyni, sem hefur verið ósigrandi í Barðsneshlaupinu þau ár sem hann hefur tekið þátt.  Það var þá sem mér fannst ég ekki vera að hlaupa lengur; þegar ég horfði á  eftir þessum glæsilega 25 ára gamla íþróttamanni þar sem hann fór í loftköstum eftir Búlandinu.  Hann klöngraðist ekki yfir árfarvegi heldur tók undir sig stökk, 2ja og 3ja metra löng ábyggilega - og mér fannst sem ég stæði kyrr.  Þorbergur ásamt nokkrum afburðahlaupurum hafði verið ræstur klukkutíma seinna en hinir, slíka yfirburði hefur hann í þessu hlaupi.  Hann mun hafa bætt brautarmetið úr rétt rúmum  2 klst í 1 klst og rúmar 57 mínútur í þessu hlaupi.  Glæsileg tilþrif sem gaman var að vera vitni að.

 


Barðsneshlaup með góðum hópi hlaupara

Ég tók lokapróf mitt í því að breyta um lífstíl um Verslunarmannahelgina.  Nú er að setja sér ný markmið.  Breytingin á lífstílnum fólst í agaðra mataræði og stóraukinni hreyfingu.  Það var sjúkaþjálfari í hlutverki einkaþjálfara sem lagði línurnar fyrir mig fyrir tveimur árum og 22 kílóum.  Barðsneshlaupið, 27 km torfæruhlaup um þrjá firði á Austurlandi, var markmiðið leynt og ljóst en það er óráðlegt að leggja í slíkt erfiði berandi of mörg aukakiló, auk þess sem þjálfa þarf vöðva hér og þar sem verið hafa í afslöppun í áratugi.  Skemmst er frá því að segja að ég skemmti mér vel og Barðsneshlaupið stóð undir væntingum.  Þátttakendur voru um 40, þar af nokkrir fyrrum samstarfsmenn mínir á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, þ.á.m. þrír læknar, og ýmsir kunningjar úr Fjarðabyggð.  Á fyrrum vinnustað mínum FSN fékk ég þessa ágætu hugmynd að breyta um lífsstíl til að koma í veg fyrir menningarsjúkdóma vesturlandabúa; en bara með því að minnka kviðfitu dregur úr líkum á nokkrum þeirra.  Þetta mættu fleiri hugsa um og endurhæfa sjálfa sig með leiðsögn fagfólks. 


Jökulsárhlaup í ágætu veðri

Hljóp úr Hólmatungum niður í Ásbyrgi; 22,1 km langa leið á laugardaginn.  Það var Jökusárhlaupið annálaða.  Norðangola var, en súld var óveruleg í fyrri hluta hlaupsins.  Bætti persónulegan árangur minn um 4 mínútur, en þetta var í þriðja skipti sem ég tek þátt í þessu bráðskemmtilega hlaupi.  Þátttakenur voru ca. 70, sem var nær helmingi minni þátttaka en í fyrra.  Og ástæðan fyrir því er auðvitað sú að "veðurfræðingar ljúga" því þeir spáðu rigningu framan af vikunni, sem fældi örugglega marga frá.  Gaman var að sjá hve margir sterkir hlauparar tóku þátt.  Og fékk ég mörg góð ráð varðandi útfærslu hlaupsins.  Ef þátttakendum hefði verið skipt upp í "hlaupara" og "skokkara" þá tilheyri ég síðarnefnda hópnum.  Fyrir mér er þetta lífstíll og ég er að keppa við sjálfan mig fyrst og fremst.

Elsta húsið í bænum

Rotaryfélagi minn í Neskaupstað sagði oft söguna um það þegar rífa átti elsta húsið í bænum. Mótmæli komu fram en bæjarstjórinn blés á það með þessum rökum: "Það verður þá bara eitthvað annað hús elsta húsið í staðinn".  Þetta mun hafa verið um miðbik síðustu aldar.  Sagan kom upp í hugann í gær þegar ég sá frétt á mbl.is með mynd af því þegar verið var að flytja eitt af allra elstu húsunum á Selfossi á brott úr miðbænum.  Það var byggt árið 1928 en þurfi að víkja fyrir nýju skipulagi.  Þetta var samkvæmt fréttinni sjöunda húsið sem byggt var á Selfossi.  En... "það verður bara eitthvað annað hús elsta húsið í miðbænum í staðinn".


Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband