Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hálfu Mývatnsmaraþoni lokið þann 31. maí

Fyrsta þolraun sumarsins sem vakti áhuga minn var Mývatnsmaraþon þann 31. maí.  Í ár var þeim atburði flýtt um nokkrar vikur.  Undanfarin ár hefur síðasta helgin í júní verið frátekin hjá fjölskyldunni.  Í ár voru engar afsakanir teknar gildar.   Það var reyndar nóg framboð af afsökunum sem bendir til þess að ég hafi efast um að vera tilbúinn í verkefnið.  En allur fyrirsláttur og afsakanir gleymdust í rásmarkinu; ánægja og vilji til átaka kom fram strax á fyrstu metrunum. 

Þetta var hið ánægjulegasta hlaup.  Veðrið var ekki skemmtilegt til að byrja með, rigning og vindur.  En fyrir þá sem hlaupa úti á Íslandi er það ónæg afsökun.  Eins og við mátti búast hélt ég of hröðu tempói  fyrir mína getu fyrstu kílómetrana.  Ég á víst erfitt með að viðurkenna að ég get ekki haldið í við alvöru hlauparana.  En ég tók mér tak eftir fyrstu 7 km og hægði niður í rétta tempóið fyrir mína hlaupaáætlun.  Það skilaði sér margfalt því eftir 12 km leið mér bara vel og gat haldð uppi ásættanlegum hraða miðað við mínar kröfur.  Það var svo ekki fyrr en við 18 km að ég stífnaði og átti í erfiðileikum með að rúlla á nægum hraða.  Þar fékk ég ofmetnað minn frá í byrjun hlaupsins í bakið, en við það bættist að vindkæling var orðin meiri og ég hafði skilið hlaupajakakkann eftir á drykkjarstöð.  Þá var bara að bita á jaxlinn og skila síðustu kílómetrunum  meira af vilja en mætti eða "á kröftum".

Ég var rúmum 2 mínútum frá "hinu hálfmaraþon-hlaupinu" sem ég hljóp í Reykjavík 2006.  En ánægjan var engu minni.  Þetta var góður dagur í góðum hópi íþróttafólks.  Framkvæmdin á hlaupinu var til fyrirmyndar og allt rúllaði átakalaust.  Gott var að slaka á í jarðböðunum á eftir þar sem fyrirheit voru gefin um frekari hlaup, hjól eða sund í sumar.  

 


Manchester United evrópumeistari

Frábær árangur hjá mínum mönnum.  Þetta er e.t.v. besta Man. Utd. lið frá upphafi. Leikurinn var einstök skemmtun þar sem bæði lið lögðu allt í sölurnar.  Heppnin var með þeim rauðu, sem voru mun betri í fyrri hálfleik, en gáfu eftir í þeim seinni.  Þeir bláu sýndu dugnað og trú á sigur og ég verð að viðurkenna að þessi viðureign gat farið á hvorn veginn sem var. Vítið frá Ronaldo var ekki nógu gott og ég fann til með John Terry að renna til á blautum vellinum á úrslitastundu. Anelka gerði ágætlega í sinni spyrnu sem Van der Sar gerði enn betur í að verja! Það var nóg.  Til hamingju, sir Alex og co.


Fuglaskoðun í gömlu fundahúsi

FlórgoðinnHugmyndir eru uppi um að gera aðstöðu til fuglaskoðunar í gamla fundahúsinu við Víkingavatn.  Það voru félagsmenn í Ungmennafélagi sveitarinnar sem reistu þetta hús árið 1924, en síðustu áratugi hefur því vantað hlutverk - að mestu.  Þar hafa safnast saman hlutir sem ekki má henda og hefur það nú verið staðfest af fulltrúum ferðamála og fleirum skilst mér; ... að þaðan megi alls ekki henda neinu nema það sé fyrst skoðað af fólki sem getur forðað menningarverðmætum frá því að  fara á haugana. 

Fuglaðskoðun í húsi með sögu og safngripum!  Er það unga fólkið sem fær svo frjóar hugmyndir? Nei, það er Þórarinn bóndi í Vogum, á áttræðisaldri sem sótti námskeið í Þistilfjörð um sprotafyrirtæki á vegum símenntunarstöðva, vegna þess að á þeim kvöldum sem hann átti styttra að fara á sama námskeið til Húsavíkur, voru kóræfingar í karlakórnum. 

Þessi skapandi hugmynd vekur áhuga minn vegna þess að fuglalíf við Víkingavatnið er fjölskrúðugt og ekki myndi spilla að skoða tilhugalíf og lífsbaráttu fuglanna í þar til gerðum  kíkjum og græjum í fornu fundarhúsi, uppgerðu.  Ég stoppaði við vatnið í nokkrar mínútur um Hvítasunnuna og þekkti þar lóm, skarf, gæsir, endur, hettumáf, kríu, hrossagauk, stelk, lóu og maríuerlu að ógleymdum einum flórgoða.  Ég held að fuglaskoðun sé hin besta skemmtun með réttum græjum.


Góð Djöflaeyja að Breiðumýri

Fór í leikhús að Breiðumýri í Reykjadal.  Leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar sýndi leikritið "Þar sem Djöflaeyjan rís", eftir bók Einars Kárasonar.  Leikstjóri Hörður Þór Benónýsson.  Þetta var frábær skemmtun. Og gaman var að sjá nokkra af nemendum Framhaldsskólans á Laugum fara á kostum í þessari sýningu.

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband