Færsluflokkur: Lífstíll

Laxárdalur á hlaupum

Hljóp ofan úr Mývatnssveit í gær, heim að Laugum, um Laxárdal.  Falleg var náttúran á íslensku sumarkvöldi í þeim fallega dal.  Rykstrókar af mýi stóðu upp af bökkum Laxár svo langt sem séð var niður eftir dalnum.  GPS úrið mældi þetta hlaup 26 km, en það má kalla þetta náttúruskoðun á hlaupum.  Ég hef tvisvar áður gengið Laxárdalinn að vestanverðu og fullyrði að hlaup eru ekki síðri leið til að skoða fegurð náttúrunnar.


Hvenær er of vont veður til að fara út að hlaupa?

Ég kynntist Ingólfi Sveinssyni, geðlækni, þegar hann starfaði á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Einnig fylgdist ég með honum í Barðsneshlaupinu, sem fram fer ár hvert um verslunarmannahelgi á Neistaflugi.  Þess má geta að Barðsnes er æskuheimili Ingólfs. Ég hef fyrir löngu síðan sett mér það mark að taka þátt í þessu hlaupi.  Þessar síðustu vikur hefur verið frekar kalt og ekki alltaf spennandi að reima á sig hlaupaskóna til að fara út að hlaupa.  Þá minnist ég orða Ingólfs þegar við ræddum um sameiginlegt áhugamál, hlaupin; en hann sagði; "Þórir, hvenær er veður of vont til að fara út að hlaupa?"  Eftir nokkra umhugsun varð ég að viðurkenna fyrir bæði mér og honum að  það er víst hægt í nánast hvaða veðri sem er.

Er það hvalur sem veltur þarna niður götuna?

Kallaði nágranni minn á eftir mér í fyrsta skipti sem ég vogaði mér út að skokka.  Þá var ég 25 kg. yfir kjörþyngd; hafði þyngst verulega eftir að ég hætt að reykja.  Ég dróst á milli ljósastaura móður og másandi en síðan eru liðin fimm ár.  Í dag hef ég náð flestum aukakílóunum af mér og tekið þátt í almenningshlaupum, m.a. hálfmaraþoni.  Þá hef ég keppt 5 sinnum í þríþraut.  Byrjað á hálfri þraut og vann mig upp í ólympíska þraut.  Nei það var ekki hvalur sem valt niður götuna.  Ég stend í ævarandi þakkarskuld við nágrannann fyrir þessa niðrandi athugasemd því þetta mótlæti í upphafi hefur fekar hvatt mig en latt á hlaupum mínum. 

Þingeysk þríþraut 11. ágúst í sumar

Undanfarin fimm ár hefur verið haldin þríþraut í Þingeyjarsýslu, oftast á Húsavík.  Síðustu tvö ár hefur verið synt Laugum, hjólað til Húsavíkur og hlaupið þar.  Í fyrra voru 17 þátttakendur og hafa sumir tekið þátt frá upphafi.  Í sumar verður boðið uppá ólympíska þraut, sem er 1500 metra sund, 40 kílómetra hjólreiðar og 10 kílómetra hlaup.  Að sjálfsögðu er hægt að taka þátt með því að fara styttri vegalengdir eða einbeita sér að einni grein.  Nánar síðar.

« Fyrri síða

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband