Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Gjá á milli stjórnvalda og almennings

Ekki skánar ástandið í stjórnmálunum.  Stjórnin framtakslaus og stjórnarandstaðan máttlaus.  Hvort tveggja ýtir undir óánægju þjóðarinnar, sem birtist í vaxandi mótmælum.  Það stefnir í einhverskonar uppgjör.  Ef mér skjátlast ekki er 90 ára fullveldisafmæli Íslands á mánudaginn 1. desember. Líklega munu margir ræðumenn velta því fyrir sér hvort við séum fullvalda þjóð í ljósi hruns efnahagslífisins í október.  Það væri auðvitað slæmt en verra er að gjá hefur myndast milli stjórnvalda og almennings, svo notað sé þekkt orðalag.  Löggjafarsamkoman var í vikunni að setja lög sem kveða á um 2ja ára fangelsi fyrir að mæta ekki í yfirheyrslu eða skila ekki gjaldeyri til landsins, svo dæmi sé tekið.  Það veit ekki á gott, eða hvað?

Viðhorf til innlendrar matvælaframleiðslu

Hvað eru matvæli stór liður í útgjöldum íslenskra fjölskyldna? Spurði mig hagfræðingur á dögunum.  Ég giskaði á 17%, en svarið var 12%  Þar af er innlend landbúnaðarframleiðsla tíund eða rúmlega 1% af öllum útgjöldum íslenskra heimila.  En viðhorf gagnvart bændum og innlendri framleiðslu hefur verið neikvætt. Neytendasamtökin hafa talið brýnt að flytja inn matvöru til að lækka heimilisútgjödlin.  Og var ekki frumvarp frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um innflutning landbúnarðarvara? Ég velti því fyrir mér hvort breyting hafi orðið á viðhorfi nú þegar innfluttar matvörur hafa hækkað gríðarlega í verði.  


Við þurfum nýja leikmenn. Burt með spillingarliðið!

c_users_anna_pictures_takk_faroe_islands_501x101px.gif Skjótt skipast veður í lofti.  Pólverjar eru farnir að lána Íslendingum fé, sem næstum fór fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar, og Færeyingar létu ekki sitt eftir liggja.  Það kemur ekki á óvart að áhugi Rússa hafi minnkað, sjá blogg mitt í síðasta mánuði.  Norðurlandaþjóðirnar munu víst skrapa saman og Norðmenn sýndu hug sinn í verki.  Merkilegt er líka að Íslendingar hafi leitað formlega til Kínverja.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verður svo væntanlega fyrir þrýstingi fra Bretum og Hollendingum en Landsbankinn rak þar innlánastarfsemi, sem skellt var í lás án formála.  Kæmi mér ekki á óvart þótt í kjölfarið fylgdu langvinn málaferli en það er víst þannig að vegna aðildar að Evrópska Efnahagssvæðinu ber Íslendingum að gera öllum þjóðernum jafn hátt undir höfði, þar með talið i setningu laga.  Það er auðvitað mikið til í því sem stjórnarvaraþingmaðurinn Mörður Árnason sagði í Silfrinu í dag að þetta er dálítið eins og landslið Íslands hafi tapað 2-14 í mikilvægum leik.  Nema hvað að nú þegar kemur að næsta mikilvæga leik við að byggja upp að nýju að þá eru sömu leikmennirnir hafðir inná og ekki búið að skipta um stjórn K.S.Í. Þjálfarar hafa nú verið látnir taka pokann sinn og gerðar breytingar á leikmannahópnum af minna tilefni.

Græðgi og meðvirkni: Burt með spillingarliðið!

medmaeliAfskriftir bankanna á kröfum til stjórnenda og lykilstarfsfólks sem keypti hlutabréf í bönkunum verða ekki liðnar.  Sama hvaða nöfnum menn vilja kalla það er þar um ósiðlegt athæfi að ræða og ólöglegt.  Þeir sem skipta búum gömlu bankanna eru í öllum rétti til að rifta þessum málamyndargerningum.  Enda sér það hvert smábarn að efnað fólk sem skuldar vegna hlutabréfakaupa á sinni eigin kennitölu er betri trygging fyrir greiðslum heldur en einkahlutafélag á nöfnum viðkomandi, sem stofnað hefur verið með 100 þús króna takmarkaðri ábyrgð.  Ég sætti mig ekki við þjófnað og lýsi eftir stjórnmálamanni með bein í nefinu til að taka á þessu máli.  En það virðist tefja málið hve margir stjórnmálamenn tengjast spillingunni með einum eða öðrum hætti. Vonandi finnst einhver sem ekki þarf að vernda fjölskyldumeðlimi eða passa sinn ráðherrastól.  Þá hefði kannski mátt treysta á fjölmiðlana, en það bætir ekki úr skák að þeir eru nær allir á sömu hendi! Spilling og samtrygging er nú að koma æ betur í ljós og þar eru komnar ærnar ástæður fyrir því að slíta stjórnarsamstarfi og sækja nýtt umboð til kjósenda.


Almúginn fái að fella sinn dóm

Allir eru nú stikkfrí á Íslandi.  Eftir marga fréttatíma og lestur blaða er ég litlu nær um það sem raunverulega gerðist.  Sagan sýnir okkur líka að það er erfitt að meta sögulega stórviðburði í sömu andrá og þeir gerast. Segja má að í október hafa átt sér stað heimildasöfnun en uppgjörin eru eftir.  Ég spái því að flestallir kaupsýslumennirnir sleppi með fjárhagstjón og siðadóma almennings, sem þeir taka auðvitað misjafnlega nærri sér.  Bankarnir lenda trúlega í málaferlum þar sem helst verður tekist  á um ábyrgðir innistæðna á erlendri grundu.  Embættismennirnir sleppa í skjóli stjórnmálamannana sem áttu að bera ábyrgð á þeim, en stjórnmálamennirnir sleppa ef ekki verður gengið fljótlega til  kosninga. Fylgi flokkana hýtur að vera gerbreytt, en er það nokkuð svo slæmt?  Kannski ekki, en þaða á enn eftir að nefna almenning sem vissi ekki einu sinni hvað stóð til en tekur svo á sig byrðar og axlar alla ábyrgð. Mér finnst því lágmarkskrafa að sami almenningur fái að axla þá ábyrgð að kjósa sér ný stjórnvöld hið fyrsta.

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband