Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Helgi Seljan löglegur en siðlaus?

Helgi Seljan átti "viðtal" við borgarstjóra Ólaf F. Magnússon í gær.  Tilsvör borgarstjóra komust  sjaldnast til skila vegna frammíkalla sjónvarpsþáttastjórnandans Helga.  Það var Vilmundur Gylfason, blessuð sé minning hans, sem þótti spyrja heldur hvasst í byrjun 8. áratugarins og sýna ráðamönnum ónóga virðingu.  Það reyndist tímabært þá og allir eru barns síns tíma.  Síendurteknar spurningar og frammíköll Helga Seljan í gær er aðferð sem hann hefur áður beitt, en spyrja má hvort tilgangurinn sé af pólitískum toga!  Sá sem tekur viðtal veit ekki hvert það leiðir og annar aðilinn á ekki að ráða niðurstöðunni.  Sífelld frammíköll og endurtekningar sömu spurningar eiga ekki heima í "viðtali".   Frekar í þriðju gráðu yfirheyrslu þar sem reynt er að trufla "viðmælandann" þannig að hann á endanum segi eitthvað í áttina við það sem til stóð að veiða upp úr honum. 

Helgi Seljan var fyrir stuttu sýknaður í meiðyrðamáli vegna umfjöllunar um meintan þátt Jónínu Bjartmarz í veitingu ríkisborgararéttar, en siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fordæmdi vinnubrögð Helga.  Reyndar skil ég dóm héraðsdóms þannig að sjónvarpsmaðurinn hafi verið löglega siðlaus og bíð eftir umfjöllun í Hæstarétti því enn hefur ekki tekist að afsanna að verið sé að nota kastljósið í pólitískum tilgangi.  En ég verð hugsi í hvert sinn sem þessi fyrrum kosningastjóri Samfylkingarinnar fjallar um hin pólitísku mál á þeim vettvangi.


Risinn rumskaði á nýrri öld

risinn_rumskar.jpgÉg var einn af leikmönnum knattspyrnuliðs umf. Tjörness sem komu saman á mærudögum á Húsavík í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá því að við spiluðum síðast saman.  Það var í Íslandsmótinu í 4. deild, eins og það hét þá, og voru Tjörnesingar með afar sigursælt lið.  Færa má sönnur á það með því að fletta upp Víkurblaðinu með skrifum Jóhannesar Sigurjónssonar á árunum 1984 til 1986.  Ennfremur eru bækurnar Íslensk knattspyrna, eftir Víði Sigurðsson örugg heimild um stórveldið Tjörnes á knattspyrnvöllum þess tíma.  Í tilefni endurfundanna voru stuðningsaðilar fengnir til að kaupa búninga á liðið og stuðningsmenn fjölmenntu á völlinn.  Auðvitað átti að hafa gaman af þessu, en ekki var laust við að gamall metnaður tæki sig upp í brjóstum leikmanna Tjörness, sem ekki vildu valda stuðningsmönnum sínum vonbrigðum.  Og enn síður máttu þeir til þess hugsa að skuggi félli á ljómann af goðsögninni um hið ósigrandi knattspyrnulið Tjörness.  En sumir spiluðu  meira af vilja en mætti því tímans tönn hafði nagað margan dáðadrenginn.  Allmargir höfðu safnað aukakílóum og kyrrseta og velmegun dregið úr snerpu á  liðnum aldarfjórðungi.  Fór því svo að lokum að úrvalslið Suður-Þingeyinga, sem voru andstæðingar okkar, mörðu nauman sigur á okkur Tjörnesingum, með 4 mörkum gegn 3.  Ekki dugðu heldur lúmska herbragðið að senda alla varamenninna inná þegar 2 mínútur voru eftir til að freista þess að jafna. Síðasta spyrna leiksins var svo þrumuskot uppundir þverslána, en leikmaður úrvalsliðsins varði hann þar með hendi.  Þar bar dómaranum að lyfta lituðu spjaldi og dæma vítið, sem hefði tryggt okkur vítakeppnina með sigri. En dómarinn ræður í drengilegum leik. Risinn hafði jú rumskað  en laut svo í gras með sæmd.

Ánægjulegt Jökulsárhlaup í 23° hita

jokulsarhlaup.jpgFjórða árið í röð hljóp ég Jökulsárhlaup mér til mikillar ánægju.  Ég vil nota tækifærið og bera lof á skipuleggjendur hlaupsins, einkum Katrínu Eymundsdóttur sem átti þessa hugmynd upphaflega og hefur alltaf stjórnað hlaupinu af röggsemi.  Nú er svo komið að 180 manns tóku þátt í hlaupinu og hlýtur það að kalla á fjármagn og aðkeypt vinnuafl, en sjálfboðaliðar hafa hingað til staðið sig frábærlega við framkvæmd hlaupsins. 

Hlaupið er um stórbrotið land í Jökulsárþjóðgarði, niður með Jökulsá á Fjöllum frá Dettifossi sem leið liggur niður í Ásbyrgi.  Hingað til hef ég látið mér nægja að hlaupa úr Hólmatungum, 21,2 km leið niður í byrgið.  Hlaupið byrjar undan brekkunni við góðar aðstæður.  Og það er alltaf jafn gaman að vaða Stallá í laxapokum og hlaupa fjárgötur og troðninga niður í Vesturdalinn.  Upp úr Vesturdalnum er veruleg hækkun og svo taka við götur eftir gömlum farvegi Jökulsár, frá þeim tíma er Ásbyrgi myndaðist og er þá víða yfir klappir að fara.  Síðasti áfangi leiðarinnar liggur svo meðfram byrginu eftir fjárgötum og eru þar meiri klappir; erfið leið fyrir þreytta fætur.  


Deilur við dómara draga úr árangri í fótbolta

Þjálfari knattspyrnuliðs Völsunga á Húsavík kveðst hafa hætt störfum vegna dómgæslu og hvernig dómarar eru búnir að haga sér gegn Völsungi þetta sumarið.  Í héraðsfréttablaðinu Skarpi er fjallað um málið í dag.  Ýmis ummæli þjálfarans fyrrverandi verða tekin fyrir hjá úrskurða- og aganefnd KSÍ, en formaður Völsungs segist vonast til að sverðin verði slíðruð.

Ég sleppi öllum palladómum um frammistöðu hins unga liðs Völsunga í sumar, en ég er tryggur stuðningsmaður liðsins.  Lengi hef ég líka haldið með Skagamönnum í efstu deild, en í þeim herbúðum er sama sorgarsagan í sumar.  Þjálfarinn heldur því fram að dómarar séu á móti Skagaliðinu og sýni þeim gul og rauð spjöld, langt umfram landsmeðaltal.  

Mér er nóg boðið og leiðist þessi umræða.  Getur verið að liðin mín nái ekki að sýna getu sína inni á vellinum af því að þjálfararnir eru uppteknir af því að kenna dómaranum um slaka frammistöðu?  Ég trúi því að betri árangur náist ef þjálfarinn sýnir leikmönnum gott fordæmi og notar krafta sína og einbeitingu í annað en að svívirða dómara fyrir þeirra störf.  Og vel á minnst; ég held að þjálfarinn á Skaganum ætti líka að taka pokann sinn, nema því aðeins að hann hætti hið snarasta þeim ósið rífa kjaft við dómarann.


Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • husavik
  • beint a hjolid
  • skogur
  • husavik
  • jlo2 jpg 475x600 sharpen q95[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband