Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Fyrir löngu var komin tími á vinstri beygju Framsóknar

Þingmenninir 7 af lista Framsóknarflokksins hafa verið að týna tölunni síðustu vikur.  Tveir hafa sagt af sér og a.m.k. tveir gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Það telst umtalsverð endurnýjun í gamalgrónum flokki.  Ýmsar ástæður eru gefnar upp.  Allt frá því að hafa óvart ýtt á Enter í tölvupósti til þess að segjast vilja víkja fyrir yngra fólki.  Mig grunar að til að leysa úr vanda flokksins þurfi nú naflaskoðun til að skilgreina hlutverk flokksins.  Ráðlegt er að beygja umtalsvert til vinstri. Kannski liggur beinast við að hverfa aftur til fortíðar og skipta þessum þó litla flokki í tvennt.  Landsbyggðarflokk, eins og hann var þegar hann var stærstur, og höfuðborgararm sem gæti umsvifaust liðsinnt Samfylkingunni t.d. í því að ganga í Evrópusambandið.  Tilburðir framsóknarmanna við að ná fylgi í borginni hafa gengið fremur illa og ég spyr mig hvort á þeim vígstöðvum hafi verið fórnað því sem flokkurinn ætti að standa fyrir.  Ekki síst nú á krepputímum.  Það er að vera málsvari landsbyggðarinnar og grunnatvinnuvega þjóðarinnar. Það er þörf fyrir félagslega samstöðu og samvinnu fólksins í landinu. Burt með græðgina og spillingarliðið.


Friðsamleg mótmæli takk

Mótmælendum er að takast að gera friðsamlega hallarbyltingu. Tilgangurinn er auðvitað sá að skipta út glórulausum leikmönnum sem eru rúnir trausti.  En það er enginn tilgangur í því að slást við lögregluna og kasta yfir hana matvælum.  Sagan mun fella betri dóma um friðsamlega byltingu á lýðræðislegum nótum. Mótmælendur mega ekki klikka á þessu grundvallaratriði á síðustu metrunum. Það er stutt þangað til ríkisstjórnin fellur. Í kjölfarið þarf að manna aftur þær stöður og þau embætti þar sem  flokkshagsmunir voru teknir fram yfir almannahag.  Burt með spillingarliðið.

Velkomin til erfiðis, Sigmundur Davíð

Framsóknarflokkurinn hafði bæði úr hæfum konum og mönnum að velja á flokksþinginu. Það veit á gott og kynslóðaskiptin sem urðu hljóta að leggja línurnar fyrir hina flokkana.  Sigmundur Davíð og Höskuldur eru báðir mjög frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins, með Eygló Harðardóttur sem annað nýtt nafn,  hefur yfir sér ferskt yfirbragð. Byrjunin var að vísu farsakennd þegar tími Höskuldar kom í 5 mínútur og fór svo aftur.  Ég leyfi mér að óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er bráðnauðsynlegt fyrir íslendinga að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs í stjórnmálunum núna.  Velkomin til erfiðis, ný forysta Framsóknar.


Pólitísk fagmennska í embættisveitingum

Umræða um stöðuveitingu setts dómsmálaráðherra rétt fyrir jólin 2007 er áfram til umræðu.  Þegar Árni Matthiesen (D) skipaði Þorstein Davíðsson dómara við héraðsdóm Norðurlands og héraðsdóm Austurlands. Kastljósið ætlar ekki að láta þetta gleymast því þrisvar var málið til umfjöllunar í síðustu viku. En það er einmitt málið.  Ráðamenn humma svona mál fram af sér og þjóðin gleymir þeim.  En kastljósið mætti skoða embættisveitingar sem þessa frá annari hlið. Hin faglega vinna sem fara á fram í hæfnisnefnd um opinberar stöðuveitingar líður oft fyrir pólitíska skipan í nefndirnar sjálfar. Pólitíska einsleitni í nefndunum, sem varla er tilviljun. Dæmi eru um að í þriggja manna hæfnisnefnd hafi setið eingöngu flokksbundið fólk í sama flokki. Þeirra á meðal einstaklingur sem á sama tíma var í prófkjöri fyrir flokkinn. Og annar sem gegndi pólitískum trúnaðarstörfum á vegum flokksins. Þetta fólk valdi auðvitað flokksbróðir sinn hæfastan umsækjanda.  Þetta er gamla Íslands og það sem veldur samfélaginu hvað mestu tjóni nú um stundir. Þetta er "Helvítis fokking fokk". Ég segi: "Burt með spillingarliðið".

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband