Ónýtt kosningamál í Þingeyjarsveit?

Samstaða fékk 5 menn kjörna af 7 í sveitarstjórnarkosninum í Þingeyjarsveit vorið 2014. Listinn lagði það m.a. til að haustið 2014 færi fram íbúakosning í skólahverfi Þingeyjarskóla um framtíðarskipan skólans.

Kjósa átti um fyrirkomulag grunnskólastigsins í "austurhluta sveitarfélagsins"; Hvort það yrði áfram á tveimur starfsstöðvum - Hafralæk og Laugum, (sem kallast hér einu nafni "Þingeyjarskóli") eða hvort sameina skyldi það á einn stað. Íbúakosningin átti að vera bindandi en sveitarstjórn tæki að henni lokinni ákvörðun í málinu. Aðeins íbúar á skólasvæði Hafralækjarskóla og Litlu-Laugaskóla áttu að taka afstöðu til málsins, en þriðji skólinn í sveitarfélaginu er á Stórutjörnum.

Nú í haust kom svo í ljós að hugmyndir Samstöðu um íbúakosningu í "austurhluta" Þingeyjasveitar stóðust líklega ekki stjórnsýslulög. Meirihlutinn fékk þá Félagsvísindastofnun HÍ til að spyrja alla íbúa sveitarfélagsins að einni spurningu um skólamál:  Hvort fólk vildi að Þingeyjarskóli verði starfræktur á einni eða tveimur starfsstöðvum. Íbúar á skólasvæði Stórutjarnarskóla voru líka spurðir.

Brustu þar með rök meirihluta Samstöðu í þessu máli?  Má ætla að meirihlutinn hafi ekki umboð frá kjósendum frá því í kosningunum í vor til að taka afstöðu í málinu? Meirihlutar í sveitarstjórnum á Íslandi hafa sprungið af minna tilefni.


Skoðanakönnun: Hvað skiptir þig máli?

Hvað skiptir máli? Hve mörgum spurningum svarar þú rétt?

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.

2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.

3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin.

4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskarsverðlaunin 2010.

Hvernig gekk þér?
Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta fólk er í fremstu röð á sínu sviði. En klappið deyr út. Verðlaunin missa ljómann.


Hér eru aðrar spurningar:

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni  skólagöngu.

2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.

3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.

4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum.

5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast.

Auðveldara?
Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki þeir, sem hafa bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin. Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli.


Ræða Vilmundar Gylfasonar frá 1982 (seinni hluti).


Hefur ekkert breyst í 30 ár? (fyrri hluti)


Fjögurra skóga hlaup í Fnjóskadal

Nýtt hlaup, Fjögurra skóga hlaupið fer fram í suðurhluta Fnjóskadals 23. júlí nk. Hægt verður að velja um fjórar vegalengdir 4.3 km.   9.3 km. 17.1 km. og 28.8 km. Öll hlaupin enda á sama stað, á íþróttavelli umf. Bjarma sem staðsettur er við þjóðveg 1. austan brúarinnar yfir Fnjóská. Keppendur mæta á Bjarmavöllinn þar sem boðið verður upp á akstur á upphafsstaði. Ræst verður í hlaupin á mismunandi tíma, lengstu vegalengdina fyrst. Allar vegalengdirnar sameinast við gróðrarstöðina í Vaglaskógi síðustu 4.3 km. Þeir skógar sem hlaupið er eftir eru: Vaglaskógur , Lundsskógur, Þórðarstaðaskógur og Reykjaskógur.  Vakin er athygli á þessu hlaupi og bent á heimasíðuna   http://thinghlaup.wordpress.com/

 


Jafnræðisreglan og endurreisn bankakerfisins

Jafnræðisregluna er að finna í 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og hljóðar svo:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Jafnræðisreglan var sett í stjórnarskrána árið 1995 er talið að hún hafi réttarfarslegt gildi fyrir þann tíma sem óskráð regla.  Markmið reglunnar er að koma í veg fyrir ómálefnalega mismununun; að sambærileg mál fái sambærilega úrlausn.  Athyglisvert er að reglan bannar ekki mismunun sem slíka heldur bannar hún mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. (heimild: Vísindavefurinn)

Heimfæra má jafnræðisregluna á viðskiptalífið með algengri réttarheimild, sem er lögjöfnun.  Ef regla gildir um A en ekki um B, og A og B eru sambærileg tilfelli, má beita reglum um A á B! Neyðarlögin hljóta t.d. að vera á dökkgráu svæði varðandi mismunun íslenskra og erlendra innistæðueigenda í bönkunum á þeim tíma.  Og afar umhugsunarvert er hvort inngrip og fjárframlög ríksisins í ca. 99% af bankamarkaðinum feli í sér mismunun gagnvart þeim örfáu sparisjóðum sem ekki þáðu ríkisaðstoð.  En þessi atriði eru þó bara sýnishorn af miklu úrvali dæma í endurreisn bankakerfisins sem ekki er víst að standist jafnræðisregluna.


Nýja Ísland óvelkomið?

Soffía Anna Steinarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður Dvalarheimilisins Hvamms á Húsavík, setti nokkur orð á blað um hlutverk stjórna öldrunarstofnana á Íslandi.  Hún gerði grein fyrir því að á Hvammi er stjórnin valin pólitískt og segist sjálf sannfærð um að ef stjórnir þessara stofnana væru mannaðar fagfólki, t.d. læknum, hjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum, viðskiptafræðingum eða lögfræðingum - í stað stjórnmálamanna, - þá væru þær virkari og gerðu meira gagn. 

Ég las grein Soffíu þegar henni var sagt upp störfum.  Ástæðan fyrir uppsögninni m.a. sögð ósanngjörn gagnrýni á stjórn Hvamms í þessari grein.  Það gat ég engan veginn lesið úr þessum skrifum. Þarna er einfaldlega um að ræða gagnrýni og skoðanir þess sem þekkir til og hefur áhuga á úrbótum.  Greinin er ágætlega skrifuð, skýr og hæfilega löng. Hún ætti að vera velkomin og sjálfsögð í umræðu og skoðanaskipti um úrbætur. - Engin brottrekstrarsök. 

Hér virðast stjórnmálamennirnir gleyma hugmyndinni um hið "Nýja Ísland" í kjölfar hrunsins.  Viðbrögð fulltrúa pólitíkurinnar við þessum skrifum voru í það minnsta önnur en mín.  Um allt aðra túlkun þeirra á skoðunum Soffíu geta áhugasamir lesið í héraðsfréttablaðinu Skarpi.   


Gamlárshlaup á Húsavík 31.12.2010

husavikHljóp gamlárshlaup á Húsavík annað árið í röð.  Hlaupið er frá Sundlauginni upp Laugarbrekkuna, niður að kísilskemmu og eftir fjörunni um bryggjusvæðið allt suður að sláturhúsi.  Þar er farið upp á bakkann og hlaupin Garðarsbrautin norður.  Beygt er upp Ásgarðsveginn og farið fram hjá Framhaldsskólanum um Vallholtsveg, bak við mjólkurstöðina og að sundlauginni.  Síðan annar eins hringur.  Ég náði ungum manni áður en fyrri hringurinn var hálfnaður og ákvað að líma mig bara á hann.  Hafði ekki meiri metnað varðandi tíma.  Ég átti auðvelt með að fylgja honum og það hvarflaði ekki að mér að fara í endasprett við þennan "héra" minn sem ég var búinn að nota 70% af hlaupinu. En hann tók þessu alvarlega og ætlaði alveg að sprengja sig til að halda sætinu.Gaman að þessu, en vert að muna að það er hægt að hafa gaman af svona uppákomum án þess að keppa og metast. Það er mín skoðun.

Hin árlega Þingeyska þríþraut haldin í 9. sinn

beint a hjolid

Þríþrautin fór fram 15. ágúst 2010 á Laugum.  Hjólað var að Tjörn og til baka, en hlaupinn Austurhlíðarhringur. Stoppað var á milli sunds og hjóls, sem kemur í veg fyrir að árangur keppenda sé skráður löglega á afrekaskra.  Til stendur að breyta þessu á næsta ári. Við Kári Páll og Gísli fengum liðsstyrk hjólahópsins á Bjargi við undirbúning.  Vel var að honum staðið og allt fór vel fram.  Um 25 keppendur voru mættir og veður var prýðilegt.  Gaman að sjá fólk koma alltaf aftur og aftur á Lauga til að taka þátt í þessu ágæta móti.  Nú þurfum við Kári að halda það einu sinni enn til að geta státað okkur af því að hafa leyst þessa þraut 10 ár í röð.

 

 

 


Skógarhlaup í Hallormstað

skogurGóðkunningi minn Kári Valur hitti mig fyrir utan Bónus verslunina á Egilsstöðum í lok júni 2010.  Spurði hvort ég kæmi ekki í Skógarhlaupið á Hallormsstað.  Ég hélt nú það.  Hitinn var um 20° minnir mig og fyrsta drykkjarstöð ekki fyrr en eftir 7 km.  En falleg var leiðin og mikið á fótinn fyrri hluta hlaups.  Þetta voru 14 km og frábær upplifun.  Mikið er til að fallegum keppnisstöðum fyrir almenningsíþróttir á Íslandi.  Á eftir var varið í Sundlaugina á Hallormsstað og svo á skemmtun í skóginum með fjölskyldunni.  Ógleymanlegur dagur.

Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • husavik
  • beint a hjolid
  • skogur
  • husavik
  • jlo2 jpg 475x600 sharpen q95[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband