Alvarlegt brot fyrrum kosningastjóra Samfylkingarinnar

Siðanefnd blaðamannafélagsins komst að þeirri niðurstöðu að Helgi Seljan hafi brotið alvarlega af sér í starfi í umfjöllun sinni um "Jónínumálið".

Forsvarsmenn Kastljóssins halda þó áfram að berja höfðinu við steininn og mótmæla dómnum eins og ungdómnum er kennt að gera ekki.  Hættið að deila við dómarann og standið upp úr sætum dómara hjá dómstól götunnar. Reynið heldur að læra af þessu máli.

Þessi umfjöllun fyrrverandi kosningastjóra Samfylkingarinnar, sem nú hefur verið staðfest að hafi verið alvarlegt bort, hefur líklega kostað Framsókn meira en þau 300 atkvæði sem þurfti til að koma Jóni Sigurðssyni á þing.

Það verður því fróðlegt að sjá viðbrögð stjórnar RÚV ohf og ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins við þessari niðurstöðu.  Páll Magnússon taldi ekkert óeðlilegt við umfjöllunina og varði sína menn og ber auðvitað endanlega ábyrgð á því sem í sjónvarpinu birtist. 


Efsta deild í knattspyrnu karla

Gaman væri ef 2-3 norðanlið spiluðu í efstu deild þannig að maður gæti séð liðin í efstu deild hér fyrir norðan.   Mér sýnist sagan vera að endurtaka sig á Skaganum.  Þar er byggt á heimamönnum og ungu strákunum treyst.  Árangurinn sést í liðsheild og hollustu.  Reyndar byrjuðu tveir 16 ára inná hjá HK í síðustu umferð.  En hvar er svo liðsheildin í Vesturbænum? Þar verður e.t.v. að gera eins og Alex Ferguson hjá Man Utd. að grisja stjörnunarnar þegar þær eru orðnar of stórar og skaðlegar liðsandanum.  Eða er kannski eitthvað annað hjá KR?  Alla vega þarf aðgerðir fljótt.


Viðhorfsbreytingar við það að verða ráðherra

Skondið að heyra ráðherra Samfylkingarinnar ýmist skipta um skoðun eða sveigja af leið í allmörgum málum eftir að þeir urðu ráðherrar.  Mikið hlýtur að vera gaman að vera ráðherra úr því fólk fórnar sannfæringu sinni fyrir það.  Nokkrar af þessum U-beygjum eru mér að skapi.  Það skal tekið fram. En kosningaloforð eru alla vega einskis virði á Íslandi í dag.

Ofstuðluð vísa

Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, kenndi mér þessa vísu í Vogum í Kelduhverfi á Hvítasunnudag.  Tilefnið var það að Þingeyingar leituð logandi ljósi að einvherjum til að taka við þingmennsku (koma í stað) Jónasar frá Hriflu.  Fundu þeir Björn á Brún.  Einhver Helgi á Húsavík, sem ég kann ekki frekari deili á, var mjög áfram um að fá Björn í stað Jónasar.  En vegna efnis vísunnar skal tekið fram að Helgi var barnlaus.  Þá átti Egill Jónasson að hafa kveðið:

Ef að Helgi eignast börn,

öll þau heita lætur

Björn, Björn, Björn, Björn og Björn,

bæði syni og dætur.

 


Litróf kennsluaðferða

Sat fundi með Ingvari Sigurgeirssyni frá KHÍ í dag.  Tilefnið var þróunarverkefni við Framhaldsskólann á Laugum sem stendur yfir í þrjú ár.  Eitt ár er nú liðið.  Þetta er spennandi verkefni og í mörg horn að líta.

Kjördæmamót í bridge á Ísafirði

Helgina 19.-20. maí spilaði ég bridge á kjördæmamóti á Ísafirði.  Gaman að því og ég hitti marga gamla kunningja, aðallega af Austurlandi.  Ég hef ekki oft átt leið til Vestfjarða, kom þangað síðast sumarið 1999;  Brá mér allverulega við að rifja upp íbúatölur í fjórðungnum.  Greinileg fækkun frá þeirri landafræði sem ég lagði síðast á minnið.  Annars var gaman að ferðast um Djúpið og gista í sumarbyggðinni á Súðavík.  Þarna ætti maður auðvitað að koma oftar.


Afsögn Jóns Sigurðssonar

Það er líklega rökrétt af Jóni að segja af sér í stöðunni.  Formaður flokksins hefði þurft að komast á þing því miður.  Þar fór enn og aftur illa fyrir Framsókn.  Uppbyggingarstarfið í stjórnarandstöðu hefði að mínu mati hentað Jóni vel.  En Jón metur stöðuna svona.  Ég óska honum alls góðs. 

Í vinsemd þeir vega hvern annan

Glórulaust hjá trúnaðarmanni Framsóknarflokksins að gaspra um það í sjónvarpsviðtali að Jón Sigurðsson komi til með að segja af sér. Sem Jón leiðrétti snarlega með tilvísuninni "fréttir af andláti mínu eru stórlega ýktar".  Svo virðist sem Jón hafi ekki náð að temja öll trippin í Framsókn.  Þau eru sjálfum sér verst því miður.  Þarna var óvarlega talað sýnist mér, einkum vegna þess að stjórnarmyndunarviðræður eru í gangi. Þetta var taktlaust finnst mér.

Hvenær er of vont veður til að fara út að hlaupa?

Ég kynntist Ingólfi Sveinssyni, geðlækni, þegar hann starfaði á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Einnig fylgdist ég með honum í Barðsneshlaupinu, sem fram fer ár hvert um verslunarmannahelgi á Neistaflugi.  Þess má geta að Barðsnes er æskuheimili Ingólfs. Ég hef fyrir löngu síðan sett mér það mark að taka þátt í þessu hlaupi.  Þessar síðustu vikur hefur verið frekar kalt og ekki alltaf spennandi að reima á sig hlaupaskóna til að fara út að hlaupa.  Þá minnist ég orða Ingólfs þegar við ræddum um sameiginlegt áhugamál, hlaupin; en hann sagði; "Þórir, hvenær er veður of vont til að fara út að hlaupa?"  Eftir nokkra umhugsun varð ég að viðurkenna fyrir bæði mér og honum að  það er víst hægt í nánast hvaða veðri sem er.

Skynsemi hjá Framsókn eða réði Geir því öllu?

Framsóknarmenn, með Jón Sigurðsson í forystu, virtust í dag gera hið rétta varðandi það að taka ekki þátt í næstu ríkisstjórn.  En líklega réðu Sjálfstæðismenn því öllu.  Engu að síður var Þetta  góð niðurstaða í ljósi þess að Framsókn átti engan góðan leik en gat gert illt verra eftir fylgistap í þessum kosningum.  Þá er bara að byggja upp og vera tilbúinn í næsta stríði.  Jóni Sigurðssyni er nú vandi á höndum þar sem hann getur ekki tekið þátt í stjórnmálaumræðunni í þinginu þegar þar að kemur.  Jón getur samt unnið  gott starf til uppbyggingar fyrir Framsókn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband