Sameining og ný tækifæri

Meirihluti kjósenda er fylgjandi sameiningu Þingeyjarsveitar og Aðaldals.  Úrslitin eru afgerandi í báðum sveitarfélögunun. Meira afgerandi en þau voru í nóvember síðastliðnum þegar niðurstaðan var efnislega hin sama.  Þá var líka kosið um aðild Skútustaðahrepps, en lýðræðisleg niðurstaða Mývetninga var að taka ekki þátt. 

Það er orðið brýnna í seinni tíð að fámenn sveitarfélög sameinist og verði þannig hæfari til að taka að sér verkefni og halda uppi þjónustu.  Hið nýja sveitarfélag telur um 1.000 íbúa og bundnar eru vonir við að sveitarfélag af þeirri stærðargráðu skili íbúunum betra samfélagi.  Um málefni nýja sveitarfélagsins verður örugglega mikil umræða næstu tvo mánuði fram að sveitarstjórnarkosningum.  Sameiningin skapar ný tækifæri og það er íbúanna að nýta þau.


mbl.is Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleði í skólastarfinu á Laugum

verkdr_34verkdr_36verkdr_30Sumardagurinn fyrsti var bjartur og fagur á Laugum. Meira en 160 gestir heimsóttu skólann og kynntu sér nýjungar í skólastarfi og skoðuðu afrakstur verkefnadrifna námsins sem unnið hefur verið við þessa viku. Gestir komu víða að og meðal þeirra mátti sjá þingmenn og ráðherra. Bar fólki saman um að dagurinn hefði verið fróðlegur og skemmtilegur bæði fyrir heimamenn og gesti.

Forvarnardagur SÍF - Leiðindum kastað í Goðafoss

Nemendur og starfsfólk Framhaldskólans á Laugum héldu uppá forvarnardag Sambands íslenskra framhaldsskólanema miðvikudaginn 9. apríl. Gengið var frá skólahúsum á Laugum, sem leið lá yfir Fljótsheiði og að Goðafossi, um 9 kílómetra vegalengd.  Gengið var með friði, heilbrigðu líferni, ást, notkun bílbelta, notkun smokka, trausti, kærleika, réttlæti, jafnrétti, velferð, von, samkennd, menntun og fleiru sem hverjum og einum fannst vert að ganga með.  

Allir voru velkomnir að ganga með Laugafólki. Gangan tók u.þ.b. 4 klukkutíma og fengu göngugarpar hressingu á leiðinni, uppá miðri heiði. Þegar komið var að Goðafossi var mælt með því að göngufólk kastaði frá sér leiðinlegum hugsunum til að rýma fyrir öðrum jákvæðari í staðinn.


medmaeli


Starfsfólk Framhaldsskólans á Laugum kynnti sér skólastarf í Minnesota

Dagana 20. til 28. október sl. ferðaðist 19 manna hópur frá Framhaldsskólanum á Laugum milli skóla í Minnesota  Tilgangurinn með ferðinni var að kynna sér framsæknar kennslu- og námsaðferðir skóla sem farið hafa óhefðbundnar leiðir með góðum árangri.  Á Laugum hefur verið unnið markvisst þróunarstarf undanfarin misseri, sem miðar að sveigjanlegu námsumhverfi og persónubundinni námsáætlun.

Þróunarstarf á Laugum
Þróunarverkefnið hófst formlega haustið 2006.  Hefðbundnar kennslustundir í einstökum greinum eru færri en áður var en í stað þeirra koma vinnustofur þar sem 2-3 kennarar eru til aðstoðar en nemendur fást við ólíkar námsgreinar samkvæmt eigin áætlunum. Ekki eru eyður í stundaskrám og vinnudagurinn því samfelldur. Reynslan lofar góðu um framhaldið því þegar er ljóst að vinnusemi, stundvísi og skólasókn hefur, þegar á heildina er litið, batnað verulega.  Það var því með opnum huga sem starfsfólk Laugaskóla hélt til

Minnesota, sem talið er vera eitt af framsæknustu fylkjum Bandaríkjanna í félagslegri þjónustu, menntun og framförum á því sviði. Prófessor Ingvar Sigurgeirsson frá Kennaraháskóla Íslands er ráðgjafi í þessu þróunarverkefni og var hópnum til halds og trausts í þessari ferð.

ZOO skólinn
Zoo skólinn, sem leggur áherslu á umhverfismál,  hefur starfað í 13 ár og var sérhannaður sem opinn skóli með sveigjanlegt námsumhverfi. Nemendur eru um 400 talsins, á aldrinum 16-18 ára. Verkefnamiðuð kennsla er um 25% námsins á 1. ári en á 2. og 3. ári eru verkefni sem nemendur velja sér allt að 75% námsins. Það er stefna skólans að nemendur velji sér verkefni eftir áhugasviði sínu; að verkefni verði betur unninn og með meiri árangri ef þau eru á áhugasviði nemendans. Kennarar sjá svo um að tengja námsgreinar og námsmarkmið við vekefnin. Þegar komið er inn í skólann vekja stór opin svæði strax athygli. Stórir salir gegna fjölþættu hlutverki, t.d. sem vinnusvæði nemenda.  Yfirstjórn er einföld og kennarar vinna saman í hópum, t.d. með því að samkenna 2 eða 3 allt að 100 manna hópi í einu. Greinilegt er að skólinn hefur verið hannaður fyrir hópvinnu nemenda og samvinnu þeirra í náminu.

Minnesota New Country skólinn
Skólinn er í smábænum Henderson í Minnesota og tók til starfa árið 1994. Hann er “samningsskóli”; sem þýðir að hann er rekinn af einkaaðilum fyrir framlög frá ríkinu.  Skólinn er mjög svo óhefðbundin því í skólanum eru 110 nemendur, 13-18 ára gamlir, í einni opinni skólastofu.  Skólaárinu er skipt upp í 5-7 vikna lotur og þegar hverri lotu er lokið fær starfsfólk skipulagsviku sem það notar til að skrá árangur nemenda og vinna með einstökum nemendum, sækja um styrki og sinna rekstri skólans.  Kennslan fer fram í einu stóru rými, en hver nemandi er með sína vinnustöð með aðgang að tölvu.  Stórt svið er fyrir miðjum salnum og kynna nemendur verkefni sín þar.  Kennarar vinna og matast í rýminu með nemendum sínum. Í hliðarherbergjum er svo ein hefðbundin kennslustofa, listgreinastofa, verkstæði og gróðurhús.  Nemendur skipuleggja nám sitt að mestu sjálfir en skyldumæting er þó daglega í stærðfræði og lestrarstund.  Nemendur skrá niður í lok hvers dags hvernig þeir hafa varið tíma sínum og fylla út sjálfsmatseyðublað. Verkefni sem nemendur velja sér verða að tengjast námsmarkmiðum fylkisins og þeim ber að leita ráða hjá sérfræðingum í samfélaginu.  Verkefninu lýkur svo með kynningum og málsvörnum nemenda gagnvart kennurum, samemendum og jafnvel almenningi.  Er þá samið um hve mörg stig verkefnið gefur, en safna þarf lágmarksfjölda stiga á hverri önn og einnig til að ljúka námi við skólann.

Hamline háskólinn
Hamline háskólinn er í St. Paul tvíburaborg Minneapolis á bökkum Missisippi árinnar.  St. Paul er eins konar umferðamiðstöð; borg flutninga, gufuskipa og lesta.  Minneapolis var aftur miðstöð kornyrkju þar sem hveitimyllur og kaupmenn settu áberandi svip á umhverfið.  Hamlin háskólinn vakti forvitni starfsfólks Framhaldsskólans á Laugum, m.a. vegna þess að þar er heimavist og mötuneyti.  Háskólalóðin er mjög falleg, með miklum gróðri og gömlum byggingum. Nemendur eru um 4600 talsins.  Í skólanum eru námsbrautir fyrir listir, kennslufræði, viðskiptafræði og lögfræði.  Sérstaka athygli vakti svokallað þjónustunám þar sem nemendur velja sér launalaust verkefni í þágu samfélagsins og fá það metið til eininga.

Margt athyglisvert
Í skólaheimsóknunum kom margt fram sem nýta má við þróun skólastarfs á Laugum.  Hið sveigjanlegu námsumhverfi kallar á fjölbreyttari námsaðferðir. Með persónubundinni námsáætlun er átt við að nemandinn fái persónulega leiðsögn gegnum framhaldsskólann. Sá möguleiki opnast að sinna öllum nemendum sem einstaklingum, bæði þeim sem standa höllum fæti í námi og ekki síður þeim sem búa yfir mestri námslegri færni. Nemendur skipuleggja sjálfir, með aðstoð kennara, hvaða verkum þeir vinna að í vinnustofum. Þetta kallar á aukið sjálfstæði og aukna ábyrgð nemenda á námi sínu, þar sem hver og einn fær persónulega leiðsögn og aðstoð við að meta styrkleika sína og veikleika. Með þessu móti geta nemendur í meira mæli notað þær vinnuaðferðir sem henta þeim best.

Vinnusvæði nemenda í sveigjanlegu námsumhverfiEin af byggingum Hamline háskólans í St. Paul minnir óneitanlega á Laugaskóla.Júlía Sigurðardóttir og Arnór Benónýsson hlýða á frásögn nemanda í New Country skólanum


<!--[if !supportLineBreakNewLine]-->
<!--[endif]-->


Minnihlutinn ræður í Þingeyjarsveit

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar ákvað á dögunum að ganga aftur til kosninga um hvort eigi að sameinast Aðaldælahreppi.  Aftur og nýbúnir eiga íbúarnir að taka afstöðu til sama máls.  Það var í nóvember síðastliðnum sem þeir veittu sveitarstjórnarmönnum umboð til að sameina þessi sveitarfélög.  Þá fór fram leynileg lýðræðisleg kosning og meirihlutinn vildi sameina.  Þá var líka kosið um aðild Skútustaðahrepps, en lýðræðisleg niðurstaða Mývetninga var að taka ekki þátt. 

En nú virðist minnihlutinn ráðskast með meirihlutann frá í íbúakosningunum í nóvember 2007.  Það sjá allir sem kynna sér 91. grein sveitarstjórnarlaga númer 45 frá 1998. Heimild til sameiningar fékkst í nóvember því 2/3 sveitarfélaganna samþykktu tillöguna.  Og í þeim sveitarfélögum sem samþykktu búa a.m.k. 2/3 íbúa sem kusu. 

Íbúar  Þingeyjarsveitar hafa nú orðið fyrir þeirri ólýðræðislegu reynslu að atkvæði þeirra í leynilegri íbúakosningu var gert ónýtt með ákvörðun sveitarstjórnar um að kjósa aftur. Það er sem sagt ekki meirihlutinn sem ræður, heldur minnihlutinn!  Ekki er vitað hvað þarf að kjósa oft svo minnihlutinn sætti sig við vilja meirihlutans.  


Herþjálfun á Laugum (Boot Camp)

  tema14[1]
Þá er hinum skemmtilega áfanga í herþjálfun hjá Hnikarri íþróttkakennara á Laugum senn að ljúka. Við það tilefni eru hér myndir teknar á venjulegri útiæfingu og á tvöfaldri kappaæfingu.

Ég óska öllum sem hafa verið með til hamingju með frábæran árangur og vona að framhald verði á þessu. Þetta var snilld hjá Laugamönnum. 


Þemadagar með Tónkvísl

tema08[1] dorg

Sunnudaginn 17. febrúar fór fram söngvakeppni Framhaldsskólans á Laugum og jafnfram söngvakeppni nokkurra af grunnskólunum á Norðurandi Eystra.  Það var mikil upplifun að vera viðstaddur og sjá hve faglega var staðið að tónlistarflutningi og allri umgjörð keppninnar.  28 keppendur stigu á sviðið og kepptu í 17 atriðum.  Nánar á www.laugar.is

Mikið var um að vera á Laugum síðustu dagana því námskeið voru í fullum gangi á meðan  aðstandendur ,,Tónkvíslarinnar" unnu myrkranna á milli við lokafrágang. Tónlistarmenn, tæknimenn og keppendur æfðu sig en á meðan aðrir sóttu námskeiðin.  Nokkrir fóru í fjós, aðrir unnu að glerlist og grímugerð, sumir svitnuðu í karate meðan aðrir fóru í silungsveiði á Vestmannsvatn og glæsidömur sáust á ferli í nágrenni við snyrtinámskeiðið.

Mánudagur 18.02. var svo lokadagur þemadaganna. Á dagskrá voru félagsmál, hannyrðir, förðun og snyrting og útivist og ferðamennska.  Þemadögum lauk með þorrablóti um kvöldið.

 


Þingeysk þríþraut 9. ágúst 2008

Þingeysk þríþraut verður haldinn í 7. sinn þann 9. ágúst 2008.  Synt verður í hinni nýju 25 metra sundlaug á Laugum og hjólaðir 40 kílómetrar til Húsavíkur, þar sem hlaupnir verða 10 kílómetrar. Ef vindstyrkur verður of mikill úr norðri verður hjólað frá Laugum að Tjörn og til baka og svo hlaupinn "Sveitahringurinn" líka kallaður "Austurhlíðarhringurinn", sem er 10 kílómetrar. 

Ánægjulegt var að sjá á hlaupasíðunni www.hlaup.is er nú þegar búið að bóka Þingeysku þríþrautina.  Það sýnir að Þingeyingar eru komnir á blað með uppákomuna.  Vonandi tekst okkur forsvarsmönnum þessa ágæta íþróttaviðburðar vel upp í ár.  Í fyrra tóku afreksmenn þátt, en bæta mátti þáttöku almennings, sem var aðaltilgangurinn með þessum viðburði í upphafi. 

Íþróttagreinarnar þrjár eru almenningsíþróttir og hægt er að taka þátt í styttri vegalengdum eða keppa í liði, þar sem einn syndir, annar hjólar og sá þriðji hleypur.  Koma svo - Þingeyingar og aðrir landsmenn! Byrjið að æfa og breytið lífstílnum heilsunni í hag.  Skráið ykkur svo í þrautina á ykkar eigin forsendum...

 


Sennilega hagstæðara fyrir Ólaf F að fótbrotna

„Ég var nokkuð langt niðri á tímabili, en sótti mér viðeigandi aðstoð og aðhlynningu til að sigrast á þessum veikindum. Þúsundir Íslendinga lenda í svipuðum erfiðleikum á hverju ári, en snúa fullfrískir aftur út í samfélagið."  segir Ólafur í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í 24 stundum í dag.

Af hverju sjá pólitískir andstæðingar og fjölmargir fordómafullur íslendingar ástæðu til persónulegra árása af þessu tilefni.  Hefðu þeir pískrað í hverju horni og málað skrattann á vegg ef Ólafur hefði verið fótbrotinn?  Og hefðu ungliðahreyfingar flokkana galað sig hása á áhorfendapöllum Ráðhússins í von um að rífa upp brjósklos t.d.?  Það var lágkúra ef tilgangurinn var sá að taka Ólaf F á taugum í ljósi sjúkdómasögunnar.  Voru óvægnir fordómar samélagsins þarna í sinni birtingarmynd?

Þetta rifjar upp fyrir mér að eitt sinn fyrirfór sér maður í litlu sjávarplássi á Íslandi.  Bréfið sem hann skildi eftir sig og minningargreinar helstu vina hans skáru úr um að hann þjáðist af þunglyndi.  Ég kynnti mér málið og í ljós kom að nokkrir raunverulegir vinir mannsins höfðu mælst til þess að hann leitaði sér lækninga við þunglyndinu.  Þeir voru þó mun fleiri í kringum hinn sjúka sem vöruðu við slíku.  Fordómar þjóðfélagsins í garð þeirra sem leituðu sér lækninga út af þvílíkum kvillum væru óbærilegir, að þeirra sögn.  Nú jæja, hverjir voru þá réttsýnir.  Jú, minnihlutinn í því máli.  Því miður. 

 

 


Hmm, Ö hmm, má þá treysta því?

Mér var sögð saga af kempunni Jónasi frá Hriflu.  Alþingismanni framsóknar fannst sér misboðið og hótaði í ræðustól þingsins að segja af sér.  Heyrðist þá Jónas tauta: "Hmm, Ö hmm, já má þá treysta því?"  Þingmaðurinn stóð ekki við stóru orðin.  Ekki var sömu sögu að segja af hótun Björns Inga Hrafnssonar í síðustu viku.  Guðni formaður gekk á eftir honum og til þes urðu fleiri háttsettir í framsókn.  En allt kom fyrir ekki.  Nú hefur Björn Ingi sagt af sér.  Ekki batnar það og enga trú hef ég á því að Guðjón Ólafur bjargi málum.  Fráleit vinnubrögð af hans hálfu sína e.t.v. að flokkur sem m.a. byggði á hugmyndum um öfgalausa pólitík á miðjunni og samvinnu fólks hefur týnt málefnum sínum.  Allt snýst nú um persónur og leikendur.  Ef hin málefnalega pólitík framsóknar er týnd er hætt við því að flokkurinn verði ekki 100 ára. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • husavik
  • beint a hjolid
  • skogur
  • husavik
  • jlo2 jpg 475x600 sharpen q95[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband