Helgi Seljan átti "viðtal" við borgarstjóra Ólaf F. Magnússon í gær. Tilsvör borgarstjóra komust sjaldnast til skila vegna frammíkalla sjónvarpsþáttastjórnandans Helga. Það var Vilmundur Gylfason, blessuð sé minning hans, sem þótti spyrja heldur hvasst í byrjun 8. áratugarins og sýna ráðamönnum ónóga virðingu. Það reyndist tímabært þá og allir eru barns síns tíma. Síendurteknar spurningar og frammíköll Helga Seljan í gær er aðferð sem hann hefur áður beitt, en spyrja má hvort tilgangurinn sé af pólitískum toga! Sá sem tekur viðtal veit ekki hvert það leiðir og annar aðilinn á ekki að ráða niðurstöðunni. Sífelld frammíköll og endurtekningar sömu spurningar eiga ekki heima í "viðtali". Frekar í þriðju gráðu yfirheyrslu þar sem reynt er að trufla "viðmælandann" þannig að hann á endanum segi eitthvað í áttina við það sem til stóð að veiða upp úr honum.
Helgi Seljan var fyrir stuttu sýknaður í meiðyrðamáli vegna umfjöllunar um meintan þátt Jónínu Bjartmarz í veitingu ríkisborgararéttar, en siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fordæmdi vinnubrögð Helga. Reyndar skil ég dóm héraðsdóms þannig að sjónvarpsmaðurinn hafi verið löglega siðlaus og bíð eftir umfjöllun í Hæstarétti því enn hefur ekki tekist að afsanna að verið sé að nota kastljósið í pólitískum tilgangi. En ég verð hugsi í hvert sinn sem þessi fyrrum kosningastjóri Samfylkingarinnar fjallar um hin pólitísku mál á þeim vettvangi.
Stjórnmál og samfélag | 31.7.2008 | 14:39 (breytt kl. 14:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lífstíll | 29.7.2008 | 23:58 (breytt 16.9.2008 kl. 00:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fjórða árið í röð hljóp ég Jökulsárhlaup mér til mikillar ánægju. Ég vil nota tækifærið og bera lof á skipuleggjendur hlaupsins, einkum Katrínu Eymundsdóttur sem átti þessa hugmynd upphaflega og hefur alltaf stjórnað hlaupinu af röggsemi. Nú er svo komið að 180 manns tóku þátt í hlaupinu og hlýtur það að kalla á fjármagn og aðkeypt vinnuafl, en sjálfboðaliðar hafa hingað til staðið sig frábærlega við framkvæmd hlaupsins.
Hlaupið er um stórbrotið land í Jökulsárþjóðgarði, niður með Jökulsá á Fjöllum frá Dettifossi sem leið liggur niður í Ásbyrgi. Hingað til hef ég látið mér nægja að hlaupa úr Hólmatungum, 21,2 km leið niður í byrgið. Hlaupið byrjar undan brekkunni við góðar aðstæður. Og það er alltaf jafn gaman að vaða Stallá í laxapokum og hlaupa fjárgötur og troðninga niður í Vesturdalinn. Upp úr Vesturdalnum er veruleg hækkun og svo taka við götur eftir gömlum farvegi Jökulsár, frá þeim tíma er Ásbyrgi myndaðist og er þá víða yfir klappir að fara. Síðasti áfangi leiðarinnar liggur svo meðfram byrginu eftir fjárgötum og eru þar meiri klappir; erfið leið fyrir þreytta fætur.
Lífstíll | 29.7.2008 | 23:14 (breytt 16.9.2008 kl. 00:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þjálfari knattspyrnuliðs Völsunga á Húsavík kveðst hafa hætt störfum vegna dómgæslu og hvernig dómarar eru búnir að haga sér gegn Völsungi þetta sumarið. Í héraðsfréttablaðinu Skarpi er fjallað um málið í dag. Ýmis ummæli þjálfarans fyrrverandi verða tekin fyrir hjá úrskurða- og aganefnd KSÍ, en formaður Völsungs segist vonast til að sverðin verði slíðruð.
Ég sleppi öllum palladómum um frammistöðu hins unga liðs Völsunga í sumar, en ég er tryggur stuðningsmaður liðsins. Lengi hef ég líka haldið með Skagamönnum í efstu deild, en í þeim herbúðum er sama sorgarsagan í sumar. Þjálfarinn heldur því fram að dómarar séu á móti Skagaliðinu og sýni þeim gul og rauð spjöld, langt umfram landsmeðaltal.
Mér er nóg boðið og leiðist þessi umræða. Getur verið að liðin mín nái ekki að sýna getu sína inni á vellinum af því að þjálfararnir eru uppteknir af því að kenna dómaranum um slaka frammistöðu? Ég trúi því að betri árangur náist ef þjálfarinn sýnir leikmönnum gott fordæmi og notar krafta sína og einbeitingu í annað en að svívirða dómara fyrir þeirra störf. Og vel á minnst; ég held að þjálfarinn á Skaganum ætti líka að taka pokann sinn, nema því aðeins að hann hætti hið snarasta þeim ósið rífa kjaft við dómarann.
Bloggar | 18.7.2008 | 22:59 (breytt kl. 22:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | 26.6.2008 | 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vinir og fjölskylda | 8.6.2008 | 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsta þolraun sumarsins sem vakti áhuga minn var Mývatnsmaraþon þann 31. maí. Í ár var þeim atburði flýtt um nokkrar vikur. Undanfarin ár hefur síðasta helgin í júní verið frátekin hjá fjölskyldunni. Í ár voru engar afsakanir teknar gildar. Það var reyndar nóg framboð af afsökunum sem bendir til þess að ég hafi efast um að vera tilbúinn í verkefnið. En allur fyrirsláttur og afsakanir gleymdust í rásmarkinu; ánægja og vilji til átaka kom fram strax á fyrstu metrunum.
Þetta var hið ánægjulegasta hlaup. Veðrið var ekki skemmtilegt til að byrja með, rigning og vindur. En fyrir þá sem hlaupa úti á Íslandi er það ónæg afsökun. Eins og við mátti búast hélt ég of hröðu tempói fyrir mína getu fyrstu kílómetrana. Ég á víst erfitt með að viðurkenna að ég get ekki haldið í við alvöru hlauparana. En ég tók mér tak eftir fyrstu 7 km og hægði niður í rétta tempóið fyrir mína hlaupaáætlun. Það skilaði sér margfalt því eftir 12 km leið mér bara vel og gat haldð uppi ásættanlegum hraða miðað við mínar kröfur. Það var svo ekki fyrr en við 18 km að ég stífnaði og átti í erfiðileikum með að rúlla á nægum hraða. Þar fékk ég ofmetnað minn frá í byrjun hlaupsins í bakið, en við það bættist að vindkæling var orðin meiri og ég hafði skilið hlaupajakakkann eftir á drykkjarstöð. Þá var bara að bita á jaxlinn og skila síðustu kílómetrunum meira af vilja en mætti eða "á kröftum".
Ég var rúmum 2 mínútum frá "hinu hálfmaraþon-hlaupinu" sem ég hljóp í Reykjavík 2006. En ánægjan var engu minni. Þetta var góður dagur í góðum hópi íþróttafólks. Framkvæmdin á hlaupinu var til fyrirmyndar og allt rúllaði átakalaust. Gott var að slaka á í jarðböðunum á eftir þar sem fyrirheit voru gefin um frekari hlaup, hjól eða sund í sumar.
Lífstíll | 22.5.2008 | 23:30 (breytt 31.5.2008 kl. 20:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær árangur hjá mínum mönnum. Þetta er e.t.v. besta Man. Utd. lið frá upphafi. Leikurinn var einstök skemmtun þar sem bæði lið lögðu allt í sölurnar. Heppnin var með þeim rauðu, sem voru mun betri í fyrri hálfleik, en gáfu eftir í þeim seinni. Þeir bláu sýndu dugnað og trú á sigur og ég verð að viðurkenna að þessi viðureign gat farið á hvorn veginn sem var. Vítið frá Ronaldo var ekki nógu gott og ég fann til með John Terry að renna til á blautum vellinum á úrslitastundu. Anelka gerði ágætlega í sinni spyrnu sem Van der Sar gerði enn betur í að verja! Það var nóg. Til hamingju, sir Alex og co.
Íþróttir | 22.5.2008 | 11:02 (breytt kl. 22:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugmyndir eru uppi um að gera aðstöðu til fuglaskoðunar í gamla fundahúsinu við Víkingavatn. Það voru félagsmenn í Ungmennafélagi sveitarinnar sem reistu þetta hús árið 1924, en síðustu áratugi hefur því vantað hlutverk - að mestu. Þar hafa safnast saman hlutir sem ekki má henda og hefur það nú verið staðfest af fulltrúum ferðamála og fleirum skilst mér; ... að þaðan megi alls ekki henda neinu nema það sé fyrst skoðað af fólki sem getur forðað menningarverðmætum frá því að fara á haugana.
Fuglaðskoðun í húsi með sögu og safngripum! Er það unga fólkið sem fær svo frjóar hugmyndir? Nei, það er Þórarinn bóndi í Vogum, á áttræðisaldri sem sótti námskeið í Þistilfjörð um sprotafyrirtæki á vegum símenntunarstöðva, vegna þess að á þeim kvöldum sem hann átti styttra að fara á sama námskeið til Húsavíkur, voru kóræfingar í karlakórnum.
Þessi skapandi hugmynd vekur áhuga minn vegna þess að fuglalíf við Víkingavatnið er fjölskrúðugt og ekki myndi spilla að skoða tilhugalíf og lífsbaráttu fuglanna í þar til gerðum kíkjum og græjum í fornu fundarhúsi, uppgerðu. Ég stoppaði við vatnið í nokkrar mínútur um Hvítasunnuna og þekkti þar lóm, skarf, gæsir, endur, hettumáf, kríu, hrossagauk, stelk, lóu og maríuerlu að ógleymdum einum flórgoða. Ég held að fuglaskoðun sé hin besta skemmtun með réttum græjum.
Dægurmál | 13.5.2008 | 23:34 (breytt kl. 23:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Menning og listir | 6.5.2008 | 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Desember 2014
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
Tenglar
Mínir tenglar
- Framhaldsskólinn á Laugum Framhaldsskólinn á Laugum
- Æfingadagbækur Æfingadagbækur
- Hlaupadagskrá Hlaupadagskrá