Færsluflokkur: Lífstíll

Ánægjulegt Jökulsárhlaup í 23° hita

jokulsarhlaup.jpgFjórða árið í röð hljóp ég Jökulsárhlaup mér til mikillar ánægju.  Ég vil nota tækifærið og bera lof á skipuleggjendur hlaupsins, einkum Katrínu Eymundsdóttur sem átti þessa hugmynd upphaflega og hefur alltaf stjórnað hlaupinu af röggsemi.  Nú er svo komið að 180 manns tóku þátt í hlaupinu og hlýtur það að kalla á fjármagn og aðkeypt vinnuafl, en sjálfboðaliðar hafa hingað til staðið sig frábærlega við framkvæmd hlaupsins. 

Hlaupið er um stórbrotið land í Jökulsárþjóðgarði, niður með Jökulsá á Fjöllum frá Dettifossi sem leið liggur niður í Ásbyrgi.  Hingað til hef ég látið mér nægja að hlaupa úr Hólmatungum, 21,2 km leið niður í byrgið.  Hlaupið byrjar undan brekkunni við góðar aðstæður.  Og það er alltaf jafn gaman að vaða Stallá í laxapokum og hlaupa fjárgötur og troðninga niður í Vesturdalinn.  Upp úr Vesturdalnum er veruleg hækkun og svo taka við götur eftir gömlum farvegi Jökulsár, frá þeim tíma er Ásbyrgi myndaðist og er þá víða yfir klappir að fara.  Síðasti áfangi leiðarinnar liggur svo meðfram byrginu eftir fjárgötum og eru þar meiri klappir; erfið leið fyrir þreytta fætur.  


Hálfu Mývatnsmaraþoni lokið þann 31. maí

Fyrsta þolraun sumarsins sem vakti áhuga minn var Mývatnsmaraþon þann 31. maí.  Í ár var þeim atburði flýtt um nokkrar vikur.  Undanfarin ár hefur síðasta helgin í júní verið frátekin hjá fjölskyldunni.  Í ár voru engar afsakanir teknar gildar.   Það var reyndar nóg framboð af afsökunum sem bendir til þess að ég hafi efast um að vera tilbúinn í verkefnið.  En allur fyrirsláttur og afsakanir gleymdust í rásmarkinu; ánægja og vilji til átaka kom fram strax á fyrstu metrunum. 

Þetta var hið ánægjulegasta hlaup.  Veðrið var ekki skemmtilegt til að byrja með, rigning og vindur.  En fyrir þá sem hlaupa úti á Íslandi er það ónæg afsökun.  Eins og við mátti búast hélt ég of hröðu tempói  fyrir mína getu fyrstu kílómetrana.  Ég á víst erfitt með að viðurkenna að ég get ekki haldið í við alvöru hlauparana.  En ég tók mér tak eftir fyrstu 7 km og hægði niður í rétta tempóið fyrir mína hlaupaáætlun.  Það skilaði sér margfalt því eftir 12 km leið mér bara vel og gat haldð uppi ásættanlegum hraða miðað við mínar kröfur.  Það var svo ekki fyrr en við 18 km að ég stífnaði og átti í erfiðileikum með að rúlla á nægum hraða.  Þar fékk ég ofmetnað minn frá í byrjun hlaupsins í bakið, en við það bættist að vindkæling var orðin meiri og ég hafði skilið hlaupajakakkann eftir á drykkjarstöð.  Þá var bara að bita á jaxlinn og skila síðustu kílómetrunum  meira af vilja en mætti eða "á kröftum".

Ég var rúmum 2 mínútum frá "hinu hálfmaraþon-hlaupinu" sem ég hljóp í Reykjavík 2006.  En ánægjan var engu minni.  Þetta var góður dagur í góðum hópi íþróttafólks.  Framkvæmdin á hlaupinu var til fyrirmyndar og allt rúllaði átakalaust.  Gott var að slaka á í jarðböðunum á eftir þar sem fyrirheit voru gefin um frekari hlaup, hjól eða sund í sumar.  

 


Herþjálfun á Laugum (Boot Camp)

  tema14[1]
Þá er hinum skemmtilega áfanga í herþjálfun hjá Hnikarri íþróttkakennara á Laugum senn að ljúka. Við það tilefni eru hér myndir teknar á venjulegri útiæfingu og á tvöfaldri kappaæfingu.

Ég óska öllum sem hafa verið með til hamingju með frábæran árangur og vona að framhald verði á þessu. Þetta var snilld hjá Laugamönnum. 


Þingeysk þríþraut 9. ágúst 2008

Þingeysk þríþraut verður haldinn í 7. sinn þann 9. ágúst 2008.  Synt verður í hinni nýju 25 metra sundlaug á Laugum og hjólaðir 40 kílómetrar til Húsavíkur, þar sem hlaupnir verða 10 kílómetrar. Ef vindstyrkur verður of mikill úr norðri verður hjólað frá Laugum að Tjörn og til baka og svo hlaupinn "Sveitahringurinn" líka kallaður "Austurhlíðarhringurinn", sem er 10 kílómetrar. 

Ánægjulegt var að sjá á hlaupasíðunni www.hlaup.is er nú þegar búið að bóka Þingeysku þríþrautina.  Það sýnir að Þingeyingar eru komnir á blað með uppákomuna.  Vonandi tekst okkur forsvarsmönnum þessa ágæta íþróttaviðburðar vel upp í ár.  Í fyrra tóku afreksmenn þátt, en bæta mátti þáttöku almennings, sem var aðaltilgangurinn með þessum viðburði í upphafi. 

Íþróttagreinarnar þrjár eru almenningsíþróttir og hægt er að taka þátt í styttri vegalengdum eða keppa í liði, þar sem einn syndir, annar hjólar og sá þriðji hleypur.  Koma svo - Þingeyingar og aðrir landsmenn! Byrjið að æfa og breytið lífstílnum heilsunni í hag.  Skráið ykkur svo í þrautina á ykkar eigin forsendum...

 


Heilsurækt skapar atvinnu og bætir lífsgæði

Garpurinn Jón Ármann Héðinsson hefur skrifað nokkuð á umræðuhorni Skarps (og e.t.v. víðar) um viðskiptatækifæri fyrir Þingeyinga.  Nefnilega Heilbrigðisþjónustu fyrir offitusjúklinga og alla þá fjölmörgu íslendinga og vesturlandabúa sem hafa gengið nærri heilsu sinni með röngu mataræði og hreyfingarleysi.  Auk offeitra mætti t.d. nefna hjarta- og lungnasjúklinga, sykursjúka og þunglynda. En mæli Garpurinn manna heilastur.  Hann er gamall í árum talið en ungur í anda og sýn hans á möguleika héraðsins til að gera það gott í heilsutengdri ferðaþjónustu er skýr.  Ég á ekki von á öðru en að "trendið" verði áfram í átt til heilbrigðs lífeyrnis, hreyfingar og hollustu. Ég tek undir það með Garpinum Jóni að þessi starfsgrein gæti veitt hundruðum manna vinnu og hundruðum þúsunda bætt lífsgæði.  Þarna er viðskiptatækifæri sem á að skoða betur. 


Góður árangur í Þingeyskri þríþraut

Þingeysk þríþraut var haldinn í 6. sinn þann 12. ágúst síðastliðinn.  Alls tóku 18 þátt í þrautinni að þessu sinni, þar af reyndu 11 við heila þraut.  Afar góður árangur náðist að þessu sinni.  Bryndís Arnarsdóttir sigraði í kvennaflokki og Steinn Jóhannsson í karlaflokki.  Þau náðu mjög góðum tímum, en geta má þess að Jens Viktor Kristjánsson, formaður Þríþrautafélags Reykjavíkur, náði besta hjólatímanum 1.11,08 með 40 kílómetra.  Steinn náði frábærum tímum í hlaupi eða 40,15 mínum að meðtöldum skiptitíma eftir að stigið var af hjólinu.  Sundtími Steins var ótrúlega góður líka, eða 19,57 mín með 1500 metrana.  Bryndís hjólaði afar vel og var 1.25,15 klst með 40 kílómetrana, en hún hljóp 10 km á ca. 1 klst.  Það var svo systir mín Hólmfríður Aðalsteinsdóttir sem náði bestum tíma kvenna í 1500 metra sundi, eða 27,38 mín. Og ekki má gleyma því að hin systir mín Arnfríður Aðalsteinsdóttir synti 500 metrana best allra á 9,19 mín. 

Þar fór Þorbergur sem fuglinn fljúgandi

Barðsneshlaupið var rúmlega hálfnað. Ég var á hlaupum, að því er mér fannst, í Búlandinu eftir að hafa klöngrast niður Götuhjallann ógurlega.  Götuhjallinn er í 200 metra hæð yfir sjó og á köflum er um einstigi að fara þannig að leiðin er ekki fyrir lofthrædda.  Á þessum slóðum þurfti ég að fara ofan í fjölmarga smálæki sem runnu úr brattri hlíðinni, stikla á steinum og stíga svo upp úr á hinum bakkanum.  Reyndist þetta mér mikið erfiði.  Þar sem ég var staddur ofan í einum þessara skorninga er slegið laust á bakið á mér og ég lít upp.  Sé ég þá nánast undir skósólana á "Norðfirðingnun þindarlausa" Þorbergi Jónssyni, sem hefur verið ósigrandi í Barðsneshlaupinu þau ár sem hann hefur tekið þátt.  Það var þá sem mér fannst ég ekki vera að hlaupa lengur; þegar ég horfði á  eftir þessum glæsilega 25 ára gamla íþróttamanni þar sem hann fór í loftköstum eftir Búlandinu.  Hann klöngraðist ekki yfir árfarvegi heldur tók undir sig stökk, 2ja og 3ja metra löng ábyggilega - og mér fannst sem ég stæði kyrr.  Þorbergur ásamt nokkrum afburðahlaupurum hafði verið ræstur klukkutíma seinna en hinir, slíka yfirburði hefur hann í þessu hlaupi.  Hann mun hafa bætt brautarmetið úr rétt rúmum  2 klst í 1 klst og rúmar 57 mínútur í þessu hlaupi.  Glæsileg tilþrif sem gaman var að vera vitni að.

 


Barðsneshlaup með góðum hópi hlaupara

Ég tók lokapróf mitt í því að breyta um lífstíl um Verslunarmannahelgina.  Nú er að setja sér ný markmið.  Breytingin á lífstílnum fólst í agaðra mataræði og stóraukinni hreyfingu.  Það var sjúkaþjálfari í hlutverki einkaþjálfara sem lagði línurnar fyrir mig fyrir tveimur árum og 22 kílóum.  Barðsneshlaupið, 27 km torfæruhlaup um þrjá firði á Austurlandi, var markmiðið leynt og ljóst en það er óráðlegt að leggja í slíkt erfiði berandi of mörg aukakiló, auk þess sem þjálfa þarf vöðva hér og þar sem verið hafa í afslöppun í áratugi.  Skemmst er frá því að segja að ég skemmti mér vel og Barðsneshlaupið stóð undir væntingum.  Þátttakendur voru um 40, þar af nokkrir fyrrum samstarfsmenn mínir á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, þ.á.m. þrír læknar, og ýmsir kunningjar úr Fjarðabyggð.  Á fyrrum vinnustað mínum FSN fékk ég þessa ágætu hugmynd að breyta um lífsstíl til að koma í veg fyrir menningarsjúkdóma vesturlandabúa; en bara með því að minnka kviðfitu dregur úr líkum á nokkrum þeirra.  Þetta mættu fleiri hugsa um og endurhæfa sjálfa sig með leiðsögn fagfólks. 


Jökulsárhlaup í ágætu veðri

Hljóp úr Hólmatungum niður í Ásbyrgi; 22,1 km langa leið á laugardaginn.  Það var Jökusárhlaupið annálaða.  Norðangola var, en súld var óveruleg í fyrri hluta hlaupsins.  Bætti persónulegan árangur minn um 4 mínútur, en þetta var í þriðja skipti sem ég tek þátt í þessu bráðskemmtilega hlaupi.  Þátttakenur voru ca. 70, sem var nær helmingi minni þátttaka en í fyrra.  Og ástæðan fyrir því er auðvitað sú að "veðurfræðingar ljúga" því þeir spáðu rigningu framan af vikunni, sem fældi örugglega marga frá.  Gaman var að sjá hve margir sterkir hlauparar tóku þátt.  Og fékk ég mörg góð ráð varðandi útfærslu hlaupsins.  Ef þátttakendum hefði verið skipt upp í "hlaupara" og "skokkara" þá tilheyri ég síðarnefnda hópnum.  Fyrir mér er þetta lífstíll og ég er að keppa við sjálfan mig fyrst og fremst.

Á einhver skó númer 42?

Jökulsárhlaup var byrjað og sextán hlauparar, þar á meðal ég, voru staddir í Hólmatungum laust fyrir klukkan 13:00.  Þeir sem hlupu frá Dettifossi voru ræstir klukkan 12:00 þannig að bestu hlaupararnir náðu að fara fyrstu 11 kílómetrana áður en ræst var í Hólmatungum.  Þegar hlaupara í öðru sæti bar að kallaði hann hástöfum á undan sér:  "Á einhver skó númer 42"?  Í ljós kom að sólinn hafði rifnað undan hægrifótarskónum.  "Ég get ekki haldið áfram nema einhver reddi mér skóm númer 42".  Lítil von virtist til þess að úr þessu rættist og litu menn vandræðalegir hver á annan.  Þá heyrðist sagt "Geturðu notað mína?".  Kenndi ég þar rödd Þórarins í Vogum, sem var bílstjóri rútunnar sem flutti hlaupahópinn að rásmarki.  Í ljós kom að Þórarinn var ekki í blankskóm, hvað þá heldur gúmmískóm eða stígvélum, heldur álitlegum svörtum strigaskóm.  Höfðu þeir skóskipti á staðnum þó hlauparinn ætti eftir að hlaupa 21 km í markið.  Þegar hlaupinu var lokið komst ég svo að því að hlauparinn á tvílitu skónum, öðrum svörtum og hinum hvítum, hafði orðið í öðru sæti í 33 km hlaupinu frá Dettifossi.  Hann mun svo hafa skipt aftur á skóm við Þórarinn og kunnað honum bestu þakkir fyrir lánið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • husavik
  • beint a hjolid
  • skogur
  • husavik
  • jlo2 jpg 475x600 sharpen q95[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband