Um ófullkomna samkeppni á Íslandi

Getur verið að efnahags- og kerfishrunið á Íslandi megi rekja til ofnotkunar og oftrúar á frjálshyggju við aðstæður þar sem hún gat aldrei notið sín. Getur verið að það kerfi að nota peninga sem mælikvarða og aðgöngumiða að völdum sé bara ekki að virka á Íslandi. Að markaðshagkerfi okkar tíma með blindri trú á nýfrjálshyggju passi íslendingum ekki. Getur verið að félagsleg form í viðskiptalífinu, s.s. samvinna fólks, hafi ekki verið svo glötuð þegar upp er staðið?

Samvinnuhreyfingin lá undir ámæli um fákeppni og einkasölu, eftir 100 ára sögu viðskipta á Íslandi. En fákeppni og einkasala einkennir einmitt íslensk fyrirtæk í nýfrjálshyggjunni. Þau komust í þá stöðu á fáeinum árum á heimamarkaði.  Og samkeppni var eyðilögð á mettíma. Nýfrjálshyggjan kom íslendingum í verri stöðu hvað varðar samkeppnismál. Nú er talað um það sem lausn að setja strangari reglur um nýfrjálshyggjuna. Kannski á að setja reglur um að leyfa "latt fé" í félögum svo grípa megi til þess þegar kreppir að? Eða banna fólki að hirða sameiginlega sjóði forfeðranna með þeim rökum að enginn sé að nota þá? Sumir benda líka á að með því að komast í Evrópusambandið skapist tækifæri fyrir íslensku fyritækin að taka þátt í alvöru samkeppni.  Það tel ég ólíklegt í ljósi þesss að Ísland hefur verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu frá árinu 1994 án þess að það hafi ýtt undir samkeppni innanlands. Sárafá Evrópsk fyrirtæki hafa horft til Íslands og sum þeirra hafa hætt við að koma. 

Svo virðiðst sem  Kína sé  ekki á sama hátt næmt fyrir dominoáhrifum efnahagshrunsins eins og sumar Vesturlandaþjóðir. Það ætla ég alla vega að vona.  Kína virðist standa betur en þær þjóðir sem markvisst færðu alla stjórnun á viðskiptum til "markaðarins" í nýfrjálshyggjubylgju sem gekk yfir Vesturlönd frá Thatcher-Reagan tímanum. 

1936

 

 


Frelsi eða ánauð

Þetta myndband, sýnir nokkrar heimskunnar manneskjur, sem hafa átt við geðhvörf að stríða, eða Bipolar Disorder.  Ég fann það á bloggsíðu Jóns Steinar Ragnarssonar http://prakkarinn.blog.is

Sjúkdómurinn er ekki  til að skammast sín fyrir þótt oft leiði hann af sér niðurlægingu í þjóðfélaginu.  Sjálfur hef ég kynnst allt of mörgu hæfileikaríku fólki sem tókst að sigrast á sjúkdómseinkennunum en ekki á fordómum samfélagsins. Mér varð hugsað til þeirra þegar ég sá þetta myndband.

 


Fyrir löngu var komin tími á vinstri beygju Framsóknar

Þingmenninir 7 af lista Framsóknarflokksins hafa verið að týna tölunni síðustu vikur.  Tveir hafa sagt af sér og a.m.k. tveir gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Það telst umtalsverð endurnýjun í gamalgrónum flokki.  Ýmsar ástæður eru gefnar upp.  Allt frá því að hafa óvart ýtt á Enter í tölvupósti til þess að segjast vilja víkja fyrir yngra fólki.  Mig grunar að til að leysa úr vanda flokksins þurfi nú naflaskoðun til að skilgreina hlutverk flokksins.  Ráðlegt er að beygja umtalsvert til vinstri. Kannski liggur beinast við að hverfa aftur til fortíðar og skipta þessum þó litla flokki í tvennt.  Landsbyggðarflokk, eins og hann var þegar hann var stærstur, og höfuðborgararm sem gæti umsvifaust liðsinnt Samfylkingunni t.d. í því að ganga í Evrópusambandið.  Tilburðir framsóknarmanna við að ná fylgi í borginni hafa gengið fremur illa og ég spyr mig hvort á þeim vígstöðvum hafi verið fórnað því sem flokkurinn ætti að standa fyrir.  Ekki síst nú á krepputímum.  Það er að vera málsvari landsbyggðarinnar og grunnatvinnuvega þjóðarinnar. Það er þörf fyrir félagslega samstöðu og samvinnu fólksins í landinu. Burt með græðgina og spillingarliðið.


Friðsamleg mótmæli takk

Mótmælendum er að takast að gera friðsamlega hallarbyltingu. Tilgangurinn er auðvitað sá að skipta út glórulausum leikmönnum sem eru rúnir trausti.  En það er enginn tilgangur í því að slást við lögregluna og kasta yfir hana matvælum.  Sagan mun fella betri dóma um friðsamlega byltingu á lýðræðislegum nótum. Mótmælendur mega ekki klikka á þessu grundvallaratriði á síðustu metrunum. Það er stutt þangað til ríkisstjórnin fellur. Í kjölfarið þarf að manna aftur þær stöður og þau embætti þar sem  flokkshagsmunir voru teknir fram yfir almannahag.  Burt með spillingarliðið.

Velkomin til erfiðis, Sigmundur Davíð

Framsóknarflokkurinn hafði bæði úr hæfum konum og mönnum að velja á flokksþinginu. Það veit á gott og kynslóðaskiptin sem urðu hljóta að leggja línurnar fyrir hina flokkana.  Sigmundur Davíð og Höskuldur eru báðir mjög frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins, með Eygló Harðardóttur sem annað nýtt nafn,  hefur yfir sér ferskt yfirbragð. Byrjunin var að vísu farsakennd þegar tími Höskuldar kom í 5 mínútur og fór svo aftur.  Ég leyfi mér að óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er bráðnauðsynlegt fyrir íslendinga að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs í stjórnmálunum núna.  Velkomin til erfiðis, ný forysta Framsóknar.


Pólitísk fagmennska í embættisveitingum

Umræða um stöðuveitingu setts dómsmálaráðherra rétt fyrir jólin 2007 er áfram til umræðu.  Þegar Árni Matthiesen (D) skipaði Þorstein Davíðsson dómara við héraðsdóm Norðurlands og héraðsdóm Austurlands. Kastljósið ætlar ekki að láta þetta gleymast því þrisvar var málið til umfjöllunar í síðustu viku. En það er einmitt málið.  Ráðamenn humma svona mál fram af sér og þjóðin gleymir þeim.  En kastljósið mætti skoða embættisveitingar sem þessa frá annari hlið. Hin faglega vinna sem fara á fram í hæfnisnefnd um opinberar stöðuveitingar líður oft fyrir pólitíska skipan í nefndirnar sjálfar. Pólitíska einsleitni í nefndunum, sem varla er tilviljun. Dæmi eru um að í þriggja manna hæfnisnefnd hafi setið eingöngu flokksbundið fólk í sama flokki. Þeirra á meðal einstaklingur sem á sama tíma var í prófkjöri fyrir flokkinn. Og annar sem gegndi pólitískum trúnaðarstörfum á vegum flokksins. Þetta fólk valdi auðvitað flokksbróðir sinn hæfastan umsækjanda.  Þetta er gamla Íslands og það sem veldur samfélaginu hvað mestu tjóni nú um stundir. Þetta er "Helvítis fokking fokk". Ég segi: "Burt með spillingarliðið".

Af hverju ætti Ísland að sækja um aðild að ESB?

Lítil umræða varð um aðild Íslands að Evópska efnahagssvæðinu þann 1. janúar 1994.  Málið var samþykkt í heild sinni á alþingi og varð aldrei kosningamál þótt aðdragandinn væri langur. Allmargir urðu þó til þess að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu og má þar nefna Samtök um óháð Ísland, sem gáfu út blað sem hét Útvörður, ef ég man rétt. Hæglega hefði mátt gera lista með fleiri hundruð rökum með og fleiri hundruð rökum á móti EES samningnum. En umræðan var slöpp.  Ennþá slappari er umræðan þó um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Þar hafa sárafá rök, með eða á móti, verið til umfjöllunar.  Stjórnarsamstarfið er í hættu ef ég skil rétt; en fáir stjórnarliðar þora að tjá einlægar skoðanir sínar, þannig er flokksræði lýðveldisins Íslands orðið.  En með hvaða rökum ætti Ísland að sækja um aðild að ESB, leyfist mér að spyrja?  Er það til að taka upp nýjan gjaldmiðil, sem tekur óratíma fyrir Ísland, eða til þess að flytja inn ódýrari matvæli, sem er úrelt sjónarmið í ljósi atburða haustsins? Eða til að yfirþjóðlegt vald leysi af hólmi duglausa stjórnmálamenn? Eða hvað? Ég tek ofan af fyrir þeim sem reyna að gera lista um kosti og galla í svo stóru máli sem þessu. Þá fyrst má eiga upplýstar og yfirvegaðar umræður um kosti og galla. Ég tel að þetta hljóti að verða þverpólitískt mál og að það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu með það eftir góðan undirbúning.


Óravegur að Evrunni

Þau skilyrði sem myntbandalag Evrópu (European Monetary System) setur fyrir upptöku Evrunnar virðast óyfirstíganleg fyrir Ísland næstu árin.  Þessi skilyrði eru: 1) Verðbólga má ekki vera meiri en 1,5% hærri en að meðaltali í þeim þremur Evrulöndum þar sem minnst verðbólga er. 2) Gengi krónunnar skal vera innan vikmarka gagnvart Evrunni, sem nemur plús mínus 15%. 3) Skuldir ríkissjóðs mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu 4) Vextir á ríkisskuldabréfum til 10 ára mega ekki vera meira en 2% hærri að meðaltali en hjá þeim þremur löndum sem lægsta verðbólgu hafa. 5) Halli á ríkissjóði má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu. Loks skal Seðlabankinn beita virkri verðlagsstýringu, ná verðbólgumarkmiðum og ekki lána til opinberra fyrirtækja. Slóvakía verður 16. Evrulandið í janúar 2009 og það hefur tekið landið allt að 5 ár að aðlaga sig að hinum ströngu kröfum sem taldar eru upp hér að framan.  Það hlýtur að taka a.m.k. þann tíma á Íslandi, eða hvað?

Júlíus Havsteen, Blöndal og bankahrunið

Júlíus Havsteen, sem var sýslumaður á Húsavík, var þekktur fyrir að standa með smælingjunum og eru af því margar sögur. Ein rifjaðist upp fyrir mér í sambandi við tilburði stjórnvalda við rannsókn bankahrunsins. Þannig var að Blöndal, sem var víneftirlitsmaður á bannárunum, bankaði óvænt uppá hjá Júlíusi sýslumanni á Húsavík. Hann ætlaði að líta í kringum sig í þorpinu og skima eftir þeim sem brugguðu landa. Júlíus vissi af þeirri iðju hjá útvegsbónda og barnakarli, sem við skulum bara kalla Helga hér,  en vildi hlífa honum við rannsókn Blöndals. Hann bað vinnumann sinn því að fara til barnakarlsins og bruggarans og færa honum þau skilaboð að Blöndal væri komin og hvort Helgi ætti nýjan fisk fyrir Blöndal. Öllum mátti vera ljóst, nema eftirlitsmanninum, að þessu erindi var ætlað að veita Helga svigrúm til að fela bruggtækin og fela slóðina.  Mér fannst þetta skemmtileg saga en velti því fyrir mér hvort stjórnvöldum gengur eitthvað álíka göfugt til með því að misfarast hendur hvað eftir annað í rannsókn bankahrunsins og draga lappirnar eins lengi og hægt er. Vonandi er gáfulegur tilgangur með vandræðaganginum því þetta er að verða pínlegt.   


Gjá á milli stjórnvalda og almennings

Ekki skánar ástandið í stjórnmálunum.  Stjórnin framtakslaus og stjórnarandstaðan máttlaus.  Hvort tveggja ýtir undir óánægju þjóðarinnar, sem birtist í vaxandi mótmælum.  Það stefnir í einhverskonar uppgjör.  Ef mér skjátlast ekki er 90 ára fullveldisafmæli Íslands á mánudaginn 1. desember. Líklega munu margir ræðumenn velta því fyrir sér hvort við séum fullvalda þjóð í ljósi hruns efnahagslífisins í október.  Það væri auðvitað slæmt en verra er að gjá hefur myndast milli stjórnvalda og almennings, svo notað sé þekkt orðalag.  Löggjafarsamkoman var í vikunni að setja lög sem kveða á um 2ja ára fangelsi fyrir að mæta ekki í yfirheyrslu eða skila ekki gjaldeyri til landsins, svo dæmi sé tekið.  Það veit ekki á gott, eða hvað?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórir Aðalsteinsson
Þórir Aðalsteinsson

Bý á Laugum í Reykjadal og kenni við Framhaldsskólann á Laugum. Ég kýs heilbrigðan lífstíl og vil fordómalausa, en skelegga umræðu. 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband